Hoppa yfir valmynd
18. desember 2020 Forsætisráðuneytið

Frumvörp til nýrra jafnréttislaga samþykkt á Alþingi

Frumvörp Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, til nýrra jafnréttislaga voru samþykkt á Alþingi í gær.

Frumvörpin eru tvö, annars vegar frumvarp til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og hins vegar frumvarp til laga um stjórnsýslu jafnréttismála. Markmið fyrrnefnda frumvarpsins er að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns og koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Síðarnefnda frumvarpið lýtur að skipulagi þeirrar stjórnsýslu sem lögð er til að gildi á sviði jafnréttismála. Tillögurnar ná meðal annars til starfa Jafnréttisstofu og kærunefndar jafnréttismála. Markmið þess frumvarps er að efla stjórnsýslu jafnréttismála og að jöfn meðferð í víðum skilningi njóti betri verndar.

Í fyrsta skiptið í íslenskum rétti er kveðið á um bann við fjölþættri mismunun en slíkt ákvæði  veitir meðal annarra fötluðum konum og konum af erlendum uppruna aukna vernd.

Þá er í fyrsta skiptið gert ráð fyrir þremur hópum fólks með mismunandi kynskráningu, þ.e konum, körlum og fólki með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá.  Af þeirri ástæðu var lagt til að heiti laganna verði lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og er þetta í fyrsta sinn síðan 1976 sem lagt er til nýtt heiti á lögunum.

Í frumvörpunum er skerpt á ákvæðum um jafnlaunavottun og jafnlaunastaðfestingu og gerð grein fyrir hlutverki Jafnréttisstofu við framkvæmd löggjafar um jafnréttismál með skýrari hætti en áður. Jafnframt eru lagðar til breytingar á ákvæðum sem varða kærunefnd jafnréttismála þar sem meðal annars verði aukið við kröfur um sérþekkingu innan kærunefndarinnar á jafnréttismálum.

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd
5. Jafnrétti kynjanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum