Hoppa yfir valmynd
18. desember 2020 Utanríkisráðuneytið

Fundað um fríverslunarmál Íslands og Kína

Fjórði fundur sameiginlegu nefndar Íslands og Kína á grundvelli fríverslunarsamnings landanna fór fram fyrr í dag. Nikulás Hannigan, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneytinu og Chen Ning skrifstofustjóri í kínverska alþjóðaefnahagsráðuneytinu stýrðu fjarfundinum í sameiningu. 

Á fundinum var farið almennt yfir viðskipti milli landanna, efnahagsástand á tímum kórónuveirufaraldurs og hvernig Ísland og Kína geta eflt samvinnu ríkjanna þegar honum lýkur, ekki síst á sviði ferðaþjónustu.

Einnig voru rædd sértækari viðskiptatengd málefni. Helst ber þar að nefna nýjar reglur um heilbrigðiseftirlit fyrir ferskvöru sem flutt er inn til Kína. Reglunum, sem kynntar voru nýverið og taka gildi um áramót, er ætlað að koma í veg fyrir að kórónuveirusmit berist til Kína með innfluttum matvælum. Ísland undirstrikaði mikilvægi þess að aðgerðir af þessu tagi byggi á vísindalegum grunni. Þá greindi fulltrúi MAST frá því að þegar hefði verið rætt við viðeigandi stjórnvöld í Kína til að fá nákvæma lýsingu á nýjum kröfum. Vonir standa til að í góðu samstarfi stjórnvalda landanna og hagsmunaaðila takist að viðhalda greiðum viðskiptum í upphafi nýs árs.

Ísland lagði einnig áherslu á mikilvægi þess að tryggja greiða póstþjónustu milli Íslands og Kína. Farsóttin hefur haft veruleg áhrif á sendingar frá Kína, sem hefur neikvæð áhrif á viðskipti milli landanna, ekki síst rafræn viðskipti. Óskað var eftir liðsinni kínverskra stjórnvalda til að færa þessi mál til betra horfs.

Þá var rætt um mögulega uppfærslu á upprunareglum fríverslunarsamningsins fyrir mikilvægar íslenskar útflutningsvörur, m.a. lýsi og skyldar afurðir, sem og sílikon. Fulltrúar Kína tóku vel í þessa málaleitan Íslands og verður því fylgt eftir af sérfræðingum beggja landa á næstunni.

Viðskipti Íslands og Kína með vörur eru umtalsverð og hafa vaxið ár frá ári síðan fríverslunarsamningurinn tók gildi árið 2014, að undanskildu árinu 2020 vegna heimsfaraldursins. Í honum felast umtalsverð tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki til framtíðar. Þjónustuviðskipti milli landanna hafa einnig vaxið verulega á undanförnum árum og eru heimsóknir kínverskra ferðamanna til Íslands þar veigamesti þátturinn.

Stefnt er að því að næsti fundur sameiginlegu nefndarinnar verði haldinn síðla árs 2021.
 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum