Hoppa yfir valmynd
30. desember 2020 Utanríkisráðuneytið, Dómsmálaráðuneytið

Miðlun persónuupplýsinga til Bretlands áfram heimil án hindrana eftir Brexit

Ísland, Evrópusambandið og Bretland hafa komist að samkomulagi um tímabundið óbreytt fyrirkomulag um miðlun persónuupplýsinga til Bretlands. Samkomulagið mun taka gildi um áramót en auglýsing þess efnis birtist í C-deild Stjórnartíðinda. 

Um áramót lýkur aðlögunartímabili vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu (ESB). Bretland og ESB náðu samkomulagi um viðskipta- og samstarfssamning á aðfangadag sem mun verða beitt til bráðabirgða frá og með 1. janúar 2021. 

Í samningnum er meðal annars að finna ákvæði um áframhaldandi frjálsa miðlun persónuupplýsinga frá ESB til Bretlands. Um er að ræða bráðabirgðafyrirkomulag sem kveður á um að frá 1. janúar 2021 muni Bretland ekki verða skilgreint sem þriðja ríki og muni því ekki falla undir ákvæði V. kafla almennu persónuverndarreglugerðarinnar (ESB) 2016/679 um flutning persónuupplýsinga úr landi. Þetta fyrirkomulag mun gilda í 6 mánuði að hámarki og á því tímabili mun ESB vinna að útgáfu ákvörðunar um að miðlun persónuupplýsinga til Bretlands teljist örugg.  

EFTA ríkin þrjú innan EES, Ísland, Noregur og Liechtenstein, beita að fullu persónuverndarlöggjöf ESB í gegnum aðild sína að EES-samningnum. Í samningi ESB og Bretlands er því gert ráð fyrir að bráðabirgðafyrirkomulagið gildi jafnframt um miðlun persónuupplýsinga frá þessum ríkjum til Bretlands náist samkomulag þess efnis. Slíkt samkomulag liggur fyrir af Íslands hálfu á grundvelli bréfaskipta.  

Fyrst um sinn eftir 1. janúar 2021  þurfa stofnanir og fyrirtæki því ekki að grípa til ráðstafana varðandi miðlun persónuupplýsinga frá Íslandi til Bretlands. Framtíðarfyrirkomulag miðlunar persónuupplýsinga til Bretlands mun ráðast á næstu mánuðum. 

Bréfaskipti Íslands við Bretland 
Bréfaskipti við framkvæmdastjórn ESB

Auglýsing í Stjórnartíðindum um samkomulag í formi bréfaskipta milli Evrópusambandsins, Bretlands og Íslands um tímabundið óbreytt fyrirkomulag á miðlun persónuupplýsinga til Bretlands.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira