Hoppa yfir valmynd
5. janúar 2021 Forsætisráðuneytið, Fjármála- og efnahagsráðuneytið, Mennta- og barnamálaráðuneytið, Innviðaráðuneytið, Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið, Dómsmálaráðuneytið

Mikið starf fram undan á Seyðisfirði

Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum í morgun að greiða tvo þriðju af kostnaði við hreinsunarstarf á Seyðisfirði vegna hamfaranna í síðasta mánuði en hann hleypur á hundruðum milljón króna miðað við grófa áætlun. Þá ákvað ríkisstjórnin að veita fimm milljónum króna til björgunarsveitarinnar Ísólfs á Seyðisfirði.

Starfshópi ríkisstjórnarinnar, undir forystu forsætisráðuneytisins, er ætlað að fylgja eftir málum er varða aðkomu ríkisins að hreinsun á svæðinu og öðrum aðgerðum sem styðja við að koma samfélaginu í starfhæft horf á ný. Starfshópurinn skal stuðla að því að opinberir aðilar hefji undirbúning og framkvæmdir við að koma innviðum samfélagsins í fyrra horf og sjá til þess að aðgerðir eins og ofanflóðavarnir og uppbygging og varðveisla menningarminja hefjist. Í starfshópnum eru fulltrúar frá dómsmálaráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, umhverfis- og auðlindaráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneyti.

Í minnisblaði forsætisráðherra sem lagt var fyrir ríkisstjórn í morgun segir að umfangsmikið starf sé fram undan við að tryggja öryggi í bænum til frambúðar.

Ekki liggur fyrir endanleg kostnaðaráætlun en ætla má að uppgröftur og hreinsunarstarf sem nú er hafið í bænum komi til með að kosta á bilinu 300-600 milljónir en hér er aðeins um grófa áætlun að ræða varðandi tiltekna þætti hreinsunarstarfsins. Við álíka hamfarir undangengin ár hefur ríkið greitt tvo þriðju kostnaðar við slíkar aðgerðir en sveitarfélögin hafa greitt þriðjung af þeim kostnaði sem hlýst af hamförunum. Líklega mun heildarkostnaður vegna tjónsins ekki liggja fyrir fyrr en í vor eða síðar.   

Þá var á fundi ríkisstjórnarinnar lagt fram minnisblað mennta – og menningarmálaráðherra um tjón á Tækniminjasafninu og friðuðum húsum en starfshópur ríkisstjórnarinnar mun fjalla sérstaklega um menningarlegt gildi byggðarinnar.

Loks var lagt fram minnisblað umhverfis- og auðlindaráðherra um skriðuföllin, vöktun Veðurstofunnar og uppbyggingu ofanflóðavarna.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum