Hoppa yfir valmynd
7. janúar 2021 Forsætisráðuneytið

Katrín ræddi við forsætisráðherra Litháens og forseta Eistlands

Kersti Kaljulaid, Katrín Jakobsdóttir og Ingrida Šimonytė - mynd

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra átti í dag fjarfund með Ingridu Šimonytė, nýjum forsætisráðherra Litháens, og símafund með Kersti Kaljulaid, forseta Eistlands.

Katrín óskaði Šimonytė til hamingju með embættið en hún tók við sem forsætisráðherra Litháens 11. desember sl. Þær ræddu samskipti Íslands og Litháens og fóru yfir stöðuna í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn. Katrín sagðist telja að frekari möguleikar á nánara samstarfi landanna tveggja væru fyrir hendi, ekki síst á sviði viðskipta, mennta- og menningarmála og jafnréttismála. Þá upplýsti Katrín um fyrirhugað boð til Šimonytė um að taka sæti í Heimsráði kvenleiðtoga sem Katrín veitir nú formennsku.

Jafnframt átti Katrín símafund með  Kersti Kaljulaid, forseta Eistlands. Ræddu þær m.a. um samskipti Íslands og Eistlands. Katrín sagði að Íslendingar mætu samstarf við Eistland mikils og að hún vonaðist til að geta tekið á móti forsetum Eystrasaltsríkjanna þriggja næsta sumar þegar fagna á 30 ára afmæli stjórnmálasamskipta landanna.  Þá ræddu þær málefni Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, þar sem Kaljulaid er í framboði fyrir stöðu framkvæmdastjóra stofnunarinnar. Að lokum ræddu þær stöðuna vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum