Hoppa yfir valmynd
12. janúar 2021 Félagsmálaráðuneytið

Skrifa undir samstarfssamning vegna frekari rannsókna á sviði fæðingarorlofs

Frá undirritun samningsins.  - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Stefán Hrafn Jónsson, forseti félagsvísindasviðs Háskóla Íslands og Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, hafa skrifað undir samstarfssamning sem snýr að frekari rannsóknum á sviði fæðingarorlofsmála. Um er að ræða samstarf vegna rannsóknarinnar Taka og nýting á fæðingarorlofi meðal foreldra á Íslandi, en markmið hennar er að meta hvernig íslensk löggjöf um fæðingar- og foreldraorlof nýtist foreldrum og horft verði sérstaklega á áhrif þeirra auknu réttinda sem hafa verið innleiddar á síðustu 3 árum. Guðný Björk Eydal, prófessor í félagsráðgjöf, og Ingólfur V. Gíslason, prófessor í félagsfræði, stýra rannsókninni. Samningurinn gildir frá 1. desember 2020 til 1. desember 2023.

Rannsókninni er skipt í þrjá megin rannsóknarþætti:

1) Rannsókn sem byggir á fyrirliggjandi gögnum Fæðingarorlofssjóðs þar sem afurðin verður söguleg samantekt á nýtingu fæðingarorlofs.

2) Tvær megindlegar kannanir, annars vegar meðal foreldra sem hafa nýtt rétt sinn hjá sjóðnum og hins vegar meðal foreldra sem ekki hafa sótt til sjóðsins. Afurðir þessa hluta verða gagnaskrár með svörum foreldra við spurningum kannananna og skýrslur um niðurstöður beggja rannsóknanna.

3) Greining á þeirri stefnumótun sem lá til grundvallar löggjöfinni árið 2000. Afurðir þessa hluta verða fræðilegar greinar til birtingar í íslenskum og alþjóðlegum tímaritum um stefnumótun sem lá til grundvallar lagasetningunni árið 2000.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra: „Það er gleðiefni að tryggja frekari rannsóknir á fæðingarorlofslöggjöfinni. Við höfum lagt mikla áherslu á að endurreisa fæðingarorlofskerfið með tugmilljarða aðgerðum á þessu kjörtímabili og mikilvægur hluti af því er að halda áfram að greina áhrif þessara aðgerða. Rannsóknin sem nú fer af stað mun veita okkur mikilvæga þekkingu um áhrif þessara aðgerða á næstu árum.“

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira