Hoppa yfir valmynd
15. janúar 2021 Heilbrigðisráðuneytið, Utanríkisráðuneytið, Forsætisráðuneytið

Fyrirkomulag sóttvarna á landamærum frá 1. maí

Þann 1. maí nk. verða tekin varfærin skref til afléttingar sóttvarnaraðgerða á landamærum sem taka munu mið af ástandi faraldursins á brottfararstað komufarþega. Þetta var ákveðið á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun. Frá og með 1. maí verður byggt á reglulega uppfærðu áhættumati Sóttvarnarstofnunar Evrópu og ríki flokkuð í græn, appelsínugul, rauð og grá eftir stöðu faraldursins.

Í ljósi landfræðilegrar sérstöðu Íslands og annarra sóttvarnasjónarmiða verður harðari sóttvarnaraðgerðum hins vegar beitt fyrir hvern áhættuflokk en þeim sem lögð eru til í tilmælum Evrópusambandsins, að minnsta kosti fyrst um sinn. Farþegar frá hættuminni löndum verða undanþegnir sóttkví og síðari skimun geti þeir framvísað vottorði um neikvæða niðurstöðu PCR-prófs innan tiltekins tíma.

Komufarþegar sem geta framvísað gildu vottorði sem sýnir fram á að COVID-19 sýking sé afstaðin verða áfram undanþegnir sóttvarnaaðgerðum á landamærum og það sama mun gilda um komufarþega sem geta framvísað gildu bólusetningarvottorði.  

Við skilgreiningu í áhættuflokka verður notast við sömu viðmið og lagt er til í samræmdum tilmælum Evrópusambandsins:

  • 14 daga nýgengi smita á hverja 100.000 íbúa
  • Hlutfall jákvæðra sýna af heildarfjölda tekinna sýna undanfarna viku
  • Sýnatökuhlutfall, þ.e. fjölda sýna sem tekin eru á hverja 100.000 íbúa undanfarna viku

Viðmið litakóðunarkerfisins eru þannig:

  • Grænn litur þýðir að nýgengi smita er undir 25 (m.v. 100.000 íbúa) og hlutfall jákvæðra sýna er undir 4%
  • Appelsínugulur litur þýðir að nýgengi er undir 50 en hlutfall jákvæðra sýna er 4% eða meira eða nýgengi er 25-150 og hlutfall jákvæðra sýna er undir 4%
  • Rauður litur á við í öðrum tilvikum
  • Grár litur þýðir að ekki liggja nægilegar upplýsingar fyrir eða tekin eru færri sýni en 300 á hverja 100.000 íbúa á viku

Þær sóttvarnareglur sem gilda munu fyrir ólíka áhættuflokka eru eftirfarandi:

Litur

Komufarþegar

Græn ríki

(14-daga nýgengi undir 25/100 þusund íbúa og hlutfall jákvæðra syna undir 4%)

Tvöföld skimun með fimm daga sóttkví á milli. Þeir sem geta framvísað vottorði um neikvæða niðurstöðu úr fyrri skimun sem framkvæmd er á brottfararstað og uppfyllir kröfur sæti skimun á landamærum en séu undanþegnir sóttkví og síðari skimun hér á landi.

Mótefnavottorð og bólusetningarvottorð tekin gild.

Appelsínugul ríki

14-daga nýgengi undir 50/hlutfall jákvæðra syna >4% eða 14-daga nýgengi 25-150 og hlutfall jákvæðra syna <4%)

Tvöföld skimun með fimm daga sóttkví á milli. Þeir sem geta framvísað vottorði um neikvæða niðurstöðu úr fyrri skimun sem framkvæmd er á brottfararstað og uppfyllir kröfur sæti skimun á landamærum en séu undanþegnir sóttkví og síðari skimun hér á landi.

Mótefnavottorð og bólusetningarvottorð tekin gild.

Rauð og grá ríki

(Önnur ríki)

Tvöföld skimun með fimm daga sóttkví á milli.

Mótefnavottorð og bólusetningarvottorð tekin gild.

 

Með því að greina svo snemma frá fyrirkomulagi sóttvarnaráðstafana á landamærum sem stefnt er að í vor er framkvæmdar- og söluaðilum gert kleift að undirbúa breytingar vel. Áhættumat litakóðunarkerfis tekur mið af óvissu um þróun faraldurs og gerir meiri fyrirsjáanleika mögulegan.

Við undirbúning ákvörðunar um fyrirkomulag á landamærum var horft til vinnu efnahagshóps fjármála- og efnahagsráðherra, vottorðahóps heilbrigðisráðuneytis, tölfræðiteymis Háskóla Íslands um áhrif sóttvarna á landamærum, samræmdra tilmæla ESB um ferðalög, leiðbeininga sem Sóttvarnastofnun Evrópu gaf út samhliða ferðatilmælum ESB, upplýsinga um bóluefni og bólusetningar frá heilbrigðisráðuneytinu og þeirrar reynslu og tölfræðilegu innsýnar sem skimanir á íslenskum landamærum hafa veitt síðustu mánuði. 

Skýrsla um fyrirkomulag sóttvarna á landamærum - útgáfa uppfærð 16. apríl 2021

Þessi frétt hefur verið leiðrétt.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum