Hoppa yfir valmynd
15. janúar 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ráðherra sækir Austfirðinga heim í kjölfar aurflóða á Seyðisfirði

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra í ferð ráðherra á Seyðisfjörð, ásamt starfsfólki ráðuneytisins og Birni Ingimarssyni bæjarstjóra Múlaþings og Ólafi Hr. Sigurðssyni fyrrverandi  bæjarstjóra Seyðisfjarðar. - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, heimsótti Seyðisfjörð í dag og kynnti sér aðstæður í kjölfar skriðufallanna sem þar urðu í síðasta mánuði. Með ráðherra í för voru formaður og starfsmaður Ofanflóðanefndar og sérfræðingar frá snjóflóðasetri Veðurstofu Íslands á Ísafirði og EFLU verkfræðistofu.

Ráðherra kynnti sér einnig varnir  á Eskifirði, Norðfirði og Fáskrúðsfirði en á Eskifirði var líka talin hætta á skriðuföllum í desember sl. Þá fundaði ráðherra með forsvarmönnum Múlaþings og Fjarðarbyggðar og var á fundunum farið yfir helstu verkefni Ofanflóðanefndar, fyrirhugaðar varnir og stöðu framkvæmda.

Ofanflóðavarnir, þ.e. varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, heyra undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Jarðfræðirannsóknir Veðurstofu Íslands, sem unnar voru á árabilinu 2003–2017, sýna að stórar, forsögulegar skriður hafa fallið á Seyðisfirði þar sem suðurhluti kaupstaðarins stendur nú. Endurskoðað og útvíkkað hættumat fyrir Seyðisfjörð var staðfest af umhverfis- og auðlindaráðherra í mars 2020. Unnið er að endurskoðun hættumatsins með hliðsjón af þeim upplýsingum sem munu fást í kjölfar skriðufallanna með vöktun og mælingum. Einnig er unnið að bráðavörnum til varnar byggðinni.

Ummerkin um forsögulegu skriðurnar sýndu að endurskoða þurfti hættumatið frá 2002 undir Neðri-Botnum, hvar skriðuföllin voru í suðurhluta bæjarins og hefur Ofanflóðavakt Veðurstofunnar fylgst sérstaklega með skriðuhættu úr Neðri-Botnum síðan þetta varð ljóst. Ráðstafanir til að bæta öryggi íbúa á þessu svæði felast m.a. í eftirliti og rýmingu húsnæðis þegar þörf krefur, þangað til gripið hefur verið til varanlegra aðgerða til þess að draga úr þessari hættu.

Veðurstofan hefur auk þess sett fram tillögur um frekari vöktun á yfirvofandi skriðuhættu í sunnanverðum Seyðisfirði og er vinna við uppsetningu mælibúnaðar þegar hafin. Meðal tillagna Veðurstofunnar eru daglegar mælingar á hreyfingu jarðlaga með fjölgun spegla í Neðri-Botnum. Niðurstöður mælinganna sendast sjálfvirkt til náttúruvárvaktar Veðurstofunnar í Reykjavík. Einnig eru hafnar tíðari mælingar á vatnsþrýstingi í borholum, en slíkar mælingar voru þegar í gangi á svæðinu vegna vinnu við frumathugun varnarkosta. Þá verði síritandi GPS-mælum komið fyrir á nokkrum stöðvum í Neðri-Botnum.

Varanlegar aðgerðir til að verja byggðina fyrir skriðuföllum eru einnig í undirbúningi og hefur EFLA verkfræðistofa, í samvinnu við svissneska sérfræðinga, unnið að frumathugun varna vegna skriðuhættu fyrir svæðið. Reiknað er með að tillögur að aðgerðum í fyrsta áfanga ofanflóðavarna fyrir Botnasvæðið liggi fyrir í vor. Markmið varnaraðgerðanna er að tryggja öryggi íbúa á svæðinu. Einnig er stefnt að því að hefja framkvæmdir við snjóflóðavarnir í norðanverðum Seyðisfirði á næsta ári.

,,Það er átakanlegt að sjá ummerki þeirra hamfara sem riðu yfir Seyðisfjörð í desember sl. og heyra, frá fyrstu hendi, lýsingar Seyðfirðinga á þessum aðstæðum. Ég er þakklátur fyrir allt okkar færa fólk sem með samstilltum hætti vinnur nú hörðum höndum að því að bregðast við aðstæðunum með því að veita Seyðfirðingum nauðsynlega hjálp og stuðning, vinna að endurskoðuðu hættumati, vöktun og viðbragði til varnar byggðinni. En það er alveg ljóst að atburðirnir á Austurlandi í desember sl. sýna að við þurfum að fylgjast betur með skriðuhættu víðar um land, m.a. í ljósi hækkandi hitastigs og aukinnar úrkomuákefðar í samhengi loftslagsbreytinga“, sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

  • Jón Haukur Steingrímsson, jarðfræðingur hjá Eflu, lýsir atburðarás. - mynd
  • Sprungur í veginum um Oddsskarð ofan byggðarinnar í Eskifirði. - mynd
  • Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, Sigríður Auður Arnardóttir formaður Ofanflóðasjóðs, Jón Björn Hákonarson bæjarstjóri Fjarðarbyggðar og Rúnar Már Gunnarsson, frá bæjarstjórn Fjarðarbyggðar við Grjótá á Eskifirði. - mynd
  • Fundað með sveitastjórnarfólki Múlaþings. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum