Hoppa yfir valmynd
19. janúar 2021 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Nýsköpun í starfsemi hins opinbera á tímum Covid rædd á Nýsköpunardeginum

Síðastliðið ár hefur Covid-19 haft í för með sér miklar áskoranir fyrir starfsemi hins opinbera en þær aðstæður sem faraldurinn skapaði ýttu jafnframt undir mikla nýsköpun og aukið samstarf milli ólíkra opinberra aðila. Um þetta verður fjallað á Nýsköpunardegi hins opinbera sem haldinn verður í annað sinn 21. janúar nk. M.a. segja fulltrúar heilsugæslunnar og embættis Landlæknis frá því hvernig tekið var stafrænt heljarstökk sem gerði á skömmum tíma kleift að auka getu til sýnatöku úr 100-200 sýnum á dag í um 2.000 sýni.

„Við komumst að því að það er hægt að gera allt á tíu dögum!“ kemur fram hjá fulltrúum heilsugæslunnar og landlæknis í kynningu þeirra sem flutt verður á Nýsköpunardeginum.

Mikill áhugi er fyrir Nýsköpunardeginum og hafa hátt í 400 manns skráð sig til þátttöku. Á deginum verður rætt vítt og breitt um áhrif Covid-19 á starfsemi hins opinbera og opinbera þjónustu og jákvæða lærdóma sem draga má – sem fela ekki síst í sér aukna samvinnu og nýtingu stafrænna lausna. M.a. verður sagt frá myndun viðbragðsteyma til að tryggja þjónustu við viðkvæma hópa í faraldrinum og hvernig Reykjavíkurborg virkjaði mannauð sinn á erfiðum tímum og starfsfólk borgarinnar tókst á við nýjar áskoranir.

Dagskráin fyrri hluta dags samanstendur af fræðslu og reynslusögum opinberra aðila en eftir hádegið er hver og einn vinnustaður hvattur til að skipuleggja nýsköpunardagskrá hjá sér ásamt því að Nýsköpunarmolar ólíkra stofnana verða í boði. Þar kennir margra grasa og mun Framkvæmdasýsla ríkisins m.a fjalla um verkefnamiðað vinnuumhverfi og skipulag vinnustaða hjá ríkinu til framtíðar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum