Hoppa yfir valmynd
19. janúar 2021 Fjármála- og efnahagsráðuneytið, Forsætisráðuneytið, Innviðaráðuneytið, Dómsmálaráðuneytið

Samkomulag og viljayfirlýsing um kaup á björgunarskipum

Frá undirrituninni í dag. Á myndinni eru Þór Þorsteinsson, formaður Landsbjargar, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. - mynd

Ríkið mun veita Landsbjörgu allt að 450 milljóna króna framlag til kaupa á þremur björgunarskipum á árunum 2021-2023. Skrifað var undir samkomulag þess efnis í dag en þar að auki var undirrituð viljayfirlýsing um kaup á sjö skipum til viðbótar á næstu tíu árum.

Samkomulagið og viljayfirlýsingin byggjast á tillögum starfshóps um eflingu björgunarskipa Landsbjargar sem forsætisráðherra skipaði í desember 2019. Starfshópurinn var skipaður í kjölfar þess að Alþingi vísaði þingsályktunartillögu um eflingu björgunarskipaflota Landsbjargar til ríkisstjórnarinnar í maí 2019. Var forsætisráðherra falið að taka málið til skoðunar og tryggja verkefninu framgang og fjármagn.

Kaupin eru liður í því að endurnýja skipakost Landsbjargar sem er kominn til ára sinna. Markmiðið er að leggja grunn að enn öflugra starfi Landsbjargar á komandi árum, efla útkallsgetu björgunarsveita og tryggja öryggi skipa og áhafna þeirra.

Í samkomulagi um kaup á þremur björgunarskipum fyrir Landsbjörg felst að ríkið greiði helming kostnaðar fyrir hvert skip. Hámarkskostnaður við hvert skip verði ekki meiri en 300 milljónir, þannig að hlutur ríkisins gæti orðið 150 milljónir. Í fjármálaáætlun fyrir árin 2021-2025 er gert ráð fyrir 450 milljóna króna framlagi vegna þessa.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum