Hoppa yfir valmynd
22. janúar 2021 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Stefna og viðmið í húsnæðismálum stofnana

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur gefið út stefnu um áherslur og viðmið í húsnæðismálum stofnana með það að leiðarljósi að tryggja hagkvæma og markvissa húsnæðisnýtingu og ná fram markmiðum um fjölbreytt og sveigjanlegt vinnuumhverfi sem styður við aukna teymisvinnu og samstarf þvert á stofnanir.

Í stefnunni segir að síbreytilegar áskoranir kalli á breyttar áherslur í húsnæðisöflun ríkisins sem stuðla að markmiðum um betri þjónustu og aukinn sveigjanleika og samlegð í starfsemi stofnana. Byggja þurfi upp og þróa hagkvæmara húsnæði sem nýtt verður með sveigjanlegum hætti undir margar stofnanir. Með því að búa starfsfólki samkeppnishæft og nútímalegt vinnuumhverfi með sveigjanlegum starfsstöðvum, auknum samrekstri og betri nýtingu innviða megi hámarka þann ávinning sem hlýst af nýrri tækni og nýjum vinnuaðferðum. 

Fram kemur í stefnunni að eftirfarandi meginmarkmið skuli höfð að leiðarljósi við húsnæðisöflun hins opinbera:

  1. Hagkvæm og markviss húsnæðisnýting.
  2. Nútímalegt vinnuumhverfi með áherslu á fjölbreytt og sveigjanleg rými.
  3. Vönduð aðstaða en án íburðar.
  4. Samnýting aðstöðu þvert á stofnanir.

Lögð er áhersla á að Ríkiseignir verði miðlægur leigutaki ríkisins að atvinnu- og skrifstofuhúsnæði á almennum markaði. Ríkiseignir muni því annast endurleigu á húsnæði til ríkisstofnana með það að markmiði að tryggja yfirsýn í húsnæðismálum.

Leiðbeiningar FSR um þróun húsnæðis og starfsaðstöðu ríkisaðila

Samhliða þessu hefur Framkvæmdasýsla ríkisins (FSR) gefið út leiðbeiningaritið „Viðmið um vinnuumhverfi - leiðbeiningar um þróun húsnæðis og starfsaðstöðu ríkisaðila”. Í ritinu er fjallað nánar um þróun og útfærslu nútímalegs vinnuumhverfis ríkisaðila. Fyrri viðmið um vinnuumhverfi voru gefin út út árið 2010 og felur nýja útgáfan í sér umtalsverðar breytingar í takt við breyttar áskoranir í ríkisrekstri og hraða framþróun starfsaðferða og stafrænna innviða. Við þróun nýrra viðmiða hefur Framkvæmdasýslan m.a. notið ráðgjafar frá kjara- og mannauðssýslu og Stafrænu Íslandi og er í viðmiðunum fjallað um þrjár meginvíddir nútíma vinnuumhverfis, þ.e. fólk, tækni og aðstöðu.

Í breyttum áherslum fyrir aðstöðu felst því meðal annars að horfið er frá þeirri stefnu að meirihluti starfsfólks hafi til afnota einkaskrifstofu, en aukið pláss fer þess í stað í fjölbreytta vinnuaðstöðu út frá verkefnum svo sem fundarherbergi, hópvinnurými, næðisrými og félagsleg rými. Með þessum breytingum verða ríkisaðilar betur í stakk búnir að bregðast við breytingum í starfsemi og jafnframt næst fram aukin hagkvæmni í nýtingu húsnæðis.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum