Hoppa yfir valmynd
25. janúar 2021 Heilbrigðisráðuneytið

Leiðir að aukinni heilsueflingu aldraðra

Ríki og sveitarfélög þurfa að taka höndum saman til að stuðla að aukinni heilsueflingu aldraðra, hvort sem hún snýr að þjálfun, endurhæfingu eða félags- og tómstundastarfi. Skapa þarf greiða leið á milli þjónustustiga, meðal annars þegar bjóða þarf endurhæfingu, hvort heldur í heimahúsi eða sérhæfðri endurhæfingarinnlögn. Starfshópur sem heilbrigðisráðherra fól að móta tillögur um heilsueflingu aldraðra hefur skilað skýrslu með tillögum sínum.

Starfshópnum var falið að fjalla um fyrirkomulag samstarfsverkefna á sviði heilsueflingar sem gera öldruðum kleift að búa í heimahúsum eins lengi og kostur er. Sérstaklega skyldi horft til samstarfs og verkaskiptingar ríkis og sveitarfélaga, en heilsuefling er mikilvægur þáttur í stuðningi við sjálfstæða búsetu og önnur lífsgæði aldraðra. Leiðarljósið í vinnu starfshópsins var að finna leiðir í þessum efnum sem eru til þess fallnar að auka lífsgæði aldraðra og stuðla að auknum lífslíkum við góða heilsu.

Ábati hins opinbera af markvissu forvarnastarfi verði metinn

Í skýrslu hópsins segir ljóst að því markvissari og betri forvarnir og heilsuefling sem sveitarfélög og ríki vinna að í þágu aldraðra, því meiri verði lífsgæði hópsins og því minni kostnaður falli til vegna heilbrigðis- og félagsþjónustu. Bent er á að í samkomulagi ríkis og sveitarfélaga um opinber fjármál frá árinu 2020 er lögð áhersla á að formgera samstarf ríkis og sveitarfélaga um skiplagða heilsueflingu eldra fólks og að ábati hins opinbera af slíku forvarnarstarfi verði metinn. 
Í starfi sínu fór hópurinn yfir ýmis gögn sem unnin hafa verið í tengslum við heilsueflingu aldraðra og eldri borgara m.a. frá Alþjóðaheilbrigðismála¬stofnuninni (WHO). Auk þess var fundað með sérfræðingum og hagsmunaaðilum þ.e. frá Landssambandi eldri borgara, Rauða krossi Íslands, Ríkisútvarpinu (RÚV), Velferðarsviði Reykjavíkurborgar, embætti landlæknis, Rannsóknarstofu HÍ og LSH í öldrunarfræðum, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Heilsuveru.

Sameiginleg gæða- og þjónustuviðmið

Skýrsla hópsins og tillögur hans taka mið af áherslum heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Í skýrslunni er dregin upp framtíðarsýn í þessum málaflokki og sett fram helstu markmið sem stefnt skuli að á tímabilinu. Meðal annars er lagt til að ríki og sveitarfélög vinni sameiginlega að því að setja og tryggja gæða og þjónustuviðmið þannig að öllum standi til boða sambærileg þjónusta óháð búsetu þannig að allir hafi sömu möguleika varðandi stuðningsþjónustu, heimahjúkrun og endurhæfingu í heimahúsi.

Víðfeðmar tillögur

Tillögur hópsins eru margþættar. Meðal annars er fjallað um aðgerðir til að stuðla að aukinni hreyfingu og virkni eldra fólks, hollara mataræði og bættu næringarástandi þeirra sem eru hrumir eða veikir. Fjallað er um aðgerðir til að aðlaga húsnæði aldraðra og umhverfi þeirra þannig að það sé öruggt og henti betur þörfum þeirra. Einnig leggur hópurinn til markvissari fræðslu og kynningu gagnvart öldruðum á þjónustu í þeirra þágu, með áherslu á leiðir til upplýsingamiðlunar sem henta aldurshópnum. Til að fylgjast betur með aðstæðum aldraðra og meta þróun í þeim efnum leggur starfshópurinn meðal annars til að bætt verði inn í árlega lýðheilsuvísa embættis landlæknis sérstökum lýðheilsuvísum sem snúa að heilsu og líðan aldraðra.

Formaður starfshópsins var Dagmar Huld Matthíasdóttir. Aðrir nefndarmenn voru Birna Sigurðardóttir, tilnefnd af félagsmálaráðuneytinu, Gígja Gunnarsdóttir, tilnefnd af embætti landlæknis, Guðlaug Einarsdóttir, án tilnefningar, Hlynur Hreinsson, tilnefndur af fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Sigrún Ólafsdóttir, tilnefnd af forsætisráðuneytinu og Valdimar Víðisson, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Áheyrnarfulltrúi var María Kristjánsdóttir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum