Hoppa yfir valmynd
26. janúar 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ráðherra ræddi aðlögun að loftslagsbreytingum á alþjóðlegum fundi

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, flytur ávarp á Climate Adaptation Summit. - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, flutti ávarp í gærkvöldi á alþjóðlegri ráðstefnu um aðlögun að loftslagsbreytingum, þar sem hann lagði m.a. áherslu á náttúrulegar lausnir á borð við vernd og endurheimt skóga og jarðvegs. Sagði hann slíkar lausnir geta skilað margþættum ávinningi í loftslagsmálum – bæði bundið kolefni úr andrúmslofti og aukið viðnám vistkerfa við þeim breytingum sem eru óumflýjanlegar.

Ráðstefnan, Climate Adaptation Summit, er haldin dagana 25.-26. janúar að undirlagi Hollendinga og með þátttöku ráðherra og fulltrúa alþjóðasamtaka, félagasamtaka og annarra, til að efla umræðu og samvinnu um aðlögun að loftslagsbreytingum. Þunginn í alþjóðlegu starfi í loftslagsmálum hefur miðað að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og takmarka með því það tjón sem verður af hröðum loftslagsbreytingum af mannavöldum. Ljóst er þó að umtalsverðar breytingar verða ekki umflúnar og að þörf er á auknum viðbúnaði gegn þeim og efldri samvinnu ríkja heims varðandi aðlögun.

Ráðherra sagði að loftslagsbreytingar hefðu áhrif á Ísland eins og önnur ríki heims. Sýnilegustu áhrifin væru hörfun jökla, en ósýnilegar breytingar kynnu að hafa jafnvel enn djúpstæðari og alvarlegri áhrif, t.d. súrnun sjávar, sem væri ógn við lífríki hafsins.

Ísland hefði eflt starf heima fyrir varðandi aðlögun að loftslagsmálum, styrkt ákvæði laga þess efnis og nú væri undirbúningur að fyrstu heildstæðu áætluninni um aðlögun hafinn. Það væri þó ljóst að ekki væri hægt að bregðast eingöngu við loftslagsvá með því að laga sig að breytingum; meginverkefnið hlyti að vera að lágmarka skaðann með því að draga úr losun.

Ráðherra lagði áherslu á náttúrulegar lausnir, sem gætu komið að liði bæði við aðlögun og við að draga úr umfangi loftslagsbreytinga. Vernd skóga, votlendis og jarðvegs kæmi í veg fyrir losun kolefnis frá landi og sömuleiðis mætti binda kolefni úr andrúmslofti með skógrækt og landgræðslu. Sterk og ósködduð vistkerfi veittu vörn gegn flóðum, eyðimerkurmyndun og fleiri gerðum náttúruvár. Á alþjóðavettvangi þyrfti að stilla betur saman starf sem miðar að vernd lífríkis og baráttunni gegn loftslagsbreytingum.

„Þótt minni losun gróðurhúsalofttegunda og aukin binding eigi að vera í forgangi, þá er aðlögun samfélagsins að breytingum sem óhjákvæmilega munu verða einnig mikilvæg.“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. „Hér heima er vinnan hafin. Árið 2019 var frumvarp um að skylda íslensk stjórnvöld til þess að vinna áætlun um aðlögun að loftslagsbreytingum samþykkt. Í fyrra skipaði ég svo starfshóp til þess að vinna tillögu að stefnu um aðlögun. Í framhaldinu verður svo unnin aðgerðaáætlun. Þetta eru mikilvæg skref og ég fagna því að alþjóðasamfélagið komi saman og ræði þessi veigamiklu mál.“ 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum