Hoppa yfir valmynd
29. janúar 2021 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Alþjóðlegur veffundur um netöryggisáskoranir gervigreindar

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið gengst fyrir stuttum alþjóðlegum veffundi um netöryggisáskoranir gervigreindar fimmtudaginn 4. febrúar nk. kl 10:00-12:00. Þrír erlendir fræðimenn munu flytja framsöguerindi og á eftir fylgja síðan pallborðsumræður sem Dr. Sigurður Emil Pálsson stýrir. Veffundurinn er öllum opinn en áhugasamir eru vinsamlegast beðnir um að staðfesta þátttöku á skáningarsíðu fundarins.

  • Prófessor Isaac Ben-Israel, frá háskólanum í Tel Aviv (sem þykir standa framarlega á heimsvísu í tölvunarfræðum) og hann þar einnig stjórnandi Blavatnik netöryggisrannsóknasetursins (Blavatnik Interdisciplinary Cyber Research Center) þar sem þverfaglegri nálgun er beitt í netöryggisfræðum. Hann er jafnframt formaður rannsóknaráðs Ísraels og ísraelsku geimferðastofnunarinnar. Hann var netöryggisráðgjafi forseta Ísraels fyrir áratug og beitti sér þar fyrir stofnun netöryggisskrifstofu forsetaembættisins. Þar að auki hefur hann komið að stjórnun ýmissa öryggistæknilegra þróunarverkefna innan ísraelska stjórnkerfisins.

  • Dr. Jassim Happa, frá Royal Holloway, University of London (og var áður hjá Háskólanum í Oxford). Hann er okkur að góðu kunnur, enda hefur hann komið til Íslands tvisvar og haldið dagsnámskeið um ýmsa þætti netöryggisfræða. Hann hefur haldið áfram að vera virkur í fjölbreytilegum rannsóknum og birti 4 greinar hvort árið 2020 og 2019, auk þess að vera nú þegar búinn að birta eina grein á þessu ári.

  • Dr. Gregory Falco frá Johns Hopkins háskóla (og er einnig tengdur rannsóknum við MIT og Stanford). Sérsvið hans er m.a. netöryggi gervigreindar og hann hefur verið mikilvirkur vísindamaður. Gregory Falco kennir nú vel sótt námskeið um netöryggi mikilvægra innviða við Háskóla Íslands (titill námskeiðs er Critical Infrastructure Cybersecurity). Kannaðir verða möguleikar á rannsóknum á netöryggi mikilvægra innviða, m.a. í tengslum við þetta fjölsótta námskeið. Dr. Falco dvelur nú á Íslandi sem Fulbright-NSF fræðimaður í netöryggismálum.

Gervigreind er einn lykla að framförum samfélags framtíðarinnar og fjórðu iðnbyltingarinnar, en reynslan sýnir að sérhver ný tækni sem opnar möguleika til góðs skapar einnig möguleika til misnotkunar og öryggisáskoranir sem bregðast þarf við. Fyrir rúmu ári síðan skilgreindi Netöryggisstofnun Evrópu, ENISA, gervigreind sem eitt brýnasta viðfangsefni netöryggis framtíðarinnar í skýrslu um þau svið netöryggis þar sem rannsókna væri mest þörf. Í lok síðasta árs gaf stofnunin jafnframt út sérstaka skýrslu um netöryggisógnir gervigreindar

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur eflt tengsl við vísindamenn sem standa framarlega á ýmsum sviðum netöryggisfræða, bæði vegna mikilvægis þess að hafa aðgang að nýsköpunarþekkingu á þessu sviði vegna starfs ráðuneytisins og einnig til að geta veitt þekkingunni áfram inn í íslenskt samfélag og stuðla að samvinnu á milli íslenskra og erlendra fræðimanna á þessu sviði. Vaxandi starf er einnig á þessu sviði hjá íslenskum háskólum og vonandi beinist kastljósið að þeirri vinnu í pallborðsumræðunum. Ráðuneytið vonast til þess að þótt þessi ráðstefna sé tiltölulega stutt og eflaust vakni fleiri spurningar en svör, þá geti hún og fleiri síðar stuðlað að frekari umræðu á þessu sviði hérlendis og jafnvel rannsóknasamstarfi, en miklu fé er nú varið alþjóðlega í rannsóknastyrki vegna netöryggismála.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum