Hoppa yfir valmynd
29. janúar 2021 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Studio Granda hlýtur Hönnunarverðlaun Íslands 2020 fyrir verkefnið Dranga

Ráðherra ásamt verðlaunahöfum Studio Granda - myndAldís Pálsdóttir

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra afhenti arkitektunum Margréti Harðardóttir og Steve Christer frá Studio Granda Hönnunarverðlaun Íslands 2020 fyrir verkefnið Drangar. 

Hönnunarverðlaun Íslands 2020 voru afhent með rafrænum hætti í dag, 29. janúar. Studio Granda hlýtur Hönnunarverðlaun Íslands 2020 fyrir Dranga, Kristín Þorkelsdóttir, grafískur hönnuður, er Heiðursverðlaunahafi Hönnunarverðlauna Íslands 2020 og fyrirtækið 66°Norður hlýtur viðurkenningu fyrir bestu fjárfestingu í hönnun. 

„Hönnunarverðlaunin fyrir árið 2020 sanna, að jafnvel á hinum verstu veirutímum, þá er sköpunarkraftur einstaklinganna eitt sterkasta aflið. Hönnunarsjóður og Hönnunarmiðstöð gegna mikilvægu hlutverki í því að auka veg og virðingu hönnunar, og þar með að opna augu jafnt fyrirtækja, stjórnvalda og almennings fyrir þeim samfélagslega ávinningi sem góð hönnun felur í sér. Við stöndum frammi fyrir stórum áskorunum sem kalla á nýja hugsun og nýjar lausnir. Á þeirri vegferð treystum við á að þær systur Nýsköpun og Hönnun verði dýrmætur og sterkur drifkraftur. Það þarf nefnilega að hanna og nýskapa heilan heim,“ segir Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra 

Verðlaunahafarnir

Drangar er metnaðarfullt hönnunarverkefni arkitektastofunnar Studio Granda og afar vel heppnuð birtingarmynd aðkallandi viðfangsefnis arkitekta i nútímasamhengi, endurhugsun og endurnýting gamalla bygginga.

Úr rökstuðningi dómnefndar: 
Hér er sérstaklega vel útfærð breyting á gömlu sveitabýli og útihúsum í gistihús fyrir ferðamenn. Veðraðar byggingarnar fá að njóta sín og halda útlitslegu yfirbragði með sterkri vísun í sögu og samhengi, en um leið er heildarmynd staðarins styrkt og efld. Dæmi um það er samspil útveggja gistihússins þar sem gömlu veggirnir standa hráir og opnir, án glugga og hurða og mynda áhrifaríkt samspil skugga og takts við nýja veggi. Innra rýmið markast af hlýlegri eik og litum dregið saman milli bygginga og rýma með hlýrri notkun timburs og lita. Mismunandi litatónar og áferð lita eru vísun í fyrri virkni býlisins, t.d. í lit nautgripa eða gljástig vinnuvéla. Öll efnisútfærsla er sérlega vönduð og tengir rýmin saman í umlykjandi ramma um lífið innan byggingarinnar. Verkið er mikilvægt fordæmi og viðmið í ljósi vaxandi fjölda bygginga, ekki síst á landsbyggðinni, sem kalla á endurskilgreiningu og endurbyggingu vegna aldurs og annars konar nýtingar. 
Drangar er nýtt gistiheimili byggt á gömlum grunni, staðsett á Snæfellsnesi. Hannað af arkitektastofunni Studio Granda sem var stofnuð af þeim Margréti Harðardóttur og Steve Christer árið 1987.


Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands 2020 hlýtur Kristín Þorkelsdóttir, grafískur hönnuður fyrir ómetanlegt brautryðjendastarf á sviðið grafískrar hönnunar á Íslandi.

Úr rökstuðningi dómnefndar: 

Verk Kristínar Þorkelsdóttur eru þjóðþekkt enda hannaði hún þá peningaseðla sem notaðir eru hér á landi, útlit íslenska vegabréfsins og ýmis þjóðþekkt merki sem blasað hafa við Íslendingum í áratugi. Verk Kristínar eru áferðarfögur og djúp af fróðleik og það sem einkennir vinnubrögðin er alúð og ástríða. 
  
Kristín starfaði sem grafískur hönnuður og hönnunarstjóri í áratugi. Árið 1967 stofnaði hún, ásamt eiginmanni sínum Herði Daníelssyni, eina öflugustu auglýsingastofu landsins, AUK — Auglýsingastofu Kristínar. Vinsældir stofunnar voru slíkar að fyrirtæki og stofnanir þurftu að sitja á biðlista til þess að komast að sem viðskiptavinir. 

Eftir langan feril Kristínar liggur umfangsmikið safn verka, sem spanna ólík viðfangsefni allt fá auglýsingaefni yfir í ásýndarverkefni, frá bókakápum yfir í peningaseðla. Mörg verka hennar lifa enn í dag og þekkjum við þau vel úr okkar daglega lífi. 
Rannsóknarvinna, áhugi og næmni fyrir viðfangsefninu einkenna vinnubrögð Kristínar.

Kristín hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir verk sín, svo sem að vera valin heiðursfélagi Félags Íslenskra teiknara og Heiðurslistarmaður Kópavogs. Kristín hefur ávallt sinnt myndlist samhliða hönnun og eru vatnslitaverk hennar í eigu fjölda fyrirtækja, stofnana og Listasafna.

 

Hönnunarfyrirtækið 66°Norður hlaut viðurkenningu fyrir bestu fjárfestingu í hönnun á Hönnunarverðlaununum 2020.

Rökstuðningur dómnefndar:
Viðurkenningu fyrir bestu fjárfestingu í hönnun árið 2020 fær 66°Norður sem stofnað var árið 1926 til að mæta lífsnauðsynlegri þörf fyrir vinnufatnað fyrir sjómenn og síðar björgunarsveitafólk. Vörumerkið hefur þróast í áranna rás og nú sem útivistarfatnaður í hæsta gæðaflokki með sterka tengingu við arfleið fyrirtækisins og í takti við strauma tískunnar.
 
Sérstaða 66°Norður er án efa fagmennska sem einkennir vörumerkið og hæfileiki til að lesa í samtímann hvort sem verið er að hanna tæknilegan útivistarfatnað, markaðsefni eða í tilraunakenndu samstarfi við íslenska og erlenda hönnuði. 

66°Norður er skýrt dæmi um það þegar góð hönnun er leiðandi afl í vexti og þróun fyrirtækis, en um 15 manns starfa í hönnunarteymi þess.

 Hönnunarverðlaun Íslands voru veitt í fyrsta sinn árið 2014 og varpa ljósi á mikilvægi og gæðum íslenskrar hönnunar og arkitektúrs, enda er vægi hönnunar í menningu, samfélagi og viðskiptalífi alltaf að aukast. Verðlaunin beina sjónum að því besta sem gert er á sviði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi um leið og einstaka hönnuðum eða hópum hönnuða er veitt mikilvæg viðurkenning. Miðstöð hönnunar og arkitektúrs stendur að verðlaununum, í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Landsvirkjun, Íslandsstofu og Samtök iðnaðarins.


Í dómnefnd Hönnunarverðlaun Íslands 2020 sátu: 
Sigríður Sigurjónsdóttir formaður, Hönnunarsafn íslands           
Hildigunnur Sverrisdóttir, arkitekt, LHÍ                                                      
Sigrún Unnarsdóttir, fatahönnuður MH&A                                                            
Þorleifur Gíslason, grafískur hönnuður MH&A                                          
Paul Bennett, hönnunarstjóri IDEO, MH&A                                               
Margrét Kristín Sigurðardóttir, SI                                                               
Hörður Lárusson, grafískur hönnuður MH&A                                           
Sigrún Birgisdóttir, arkitekt, LHÍ      


 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira