Hoppa yfir valmynd
1. febrúar 2021 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ísland hefur lagt um 550 milljónir króna í bóluefni til þróunarríkja

Ísland hefur lagt um 550 milljónir króna í bóluefni til þróunarríkja - myndStjórnarráðið

Íslensk stjórnvöld hafa lagt um 550 milljónir króna til þróunar, framleiðslu og dreifingar bóluefna við Covid-19 í þróunarlöndum, þ.a. 250 m.kr. til GAVI-samstarfsins um bóluefni til lág- og millitekjuríkja. Þetta kom fram á föstudag á heimsfundi fjármálaráðherra þar sem fjallað var um vanda þróunarríkja sem stafar af heimsfaraldri kórónuveiru og stuðning við þau í baráttu við faraldurinn og afleiðingar hans. Þar kom skýrt fram að víðtæk bólusetning um allan heim væri arðbær fjárfesting enda forsenda endurreisnar heimsbúskaparins. Að auki hefur Ísland ráðstafað um hálfum milljarði til annarra alþjóðlegra verkefna til að sporna gegn óbeinum áhrifum faraldursins.

Framlag Íslands til bóluefna vegna Covid-19 byggist á alþjóðlega samstarfinu ACT-Accelerator (Access to Covid-19 Tools) sem hefur að markmiði að flýta þróun, framleiðslu og jöfnum aðgangi að skimunarbúnaði, meðferðum og bóluefni gegn sjúkdómnum. Að samstarfinu standa alþjóðastofnanir, ríkisstjórnir, einkageirinn og frjáls félagasamtök. Ísland er meðal þeirra ríkja sem hafa lagt hvað mest til þessa samstarfs ef litið er til stærðar hagkerfa eða fólksfjölda.

Áhersla á jafnt aðgengi ríkja að bóluefnum óháð greiðslugetu

Íslensk stjórnvöld hafa lagt áherslu á mikilvægi alþjóðlegrar samvinnu um þróun og framleiðslu bóluefnis og jafns aðgengis ríkja óháð greiðslugetu þeirra. Fram kom af hálfu Íslands á fundinum að þótt hér á landi fyndi fólk fyrir margvíslegum áhrifum faraldursins, til að mynda á efnahag landsins, tryggðu sterkir innviðir og góð staða ríkisfjármála varnir og viðspyrnu við honum. Hið sama væri ekki að segja um mörg efnaminni lönd, þar sem mikil söfnun skulda og aukin byrði af völdum þess blasir við vegna Covid-19. Því væri það skylda Íslands að styðja við hnattrænar aðgerðir til að aðstoða og tryggja framgang heimsmarkmiðanna um sjálfbæra þróun.

Á fundinum kom fram að allt að 27 milljarða Bandaríkjadala þurfi fyrir lok ársins 2021 frá efnameiri ríkjum til að stemma stigu við skuldasöfnun og aukinni skuldabyrði þróunarríkja vegna beinna og óbeinna áhrifa faraldursins. Til fundarins var boðað af fjármálaráðherrum Noregs og Suður-Afríku og var m.a. rætt um tæki og tól til þess að afla nægilegra fjármuna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum