Hoppa yfir valmynd
2. febrúar 2021 Innviðaráðuneytið

Norrænir samgönguráðherrar ræddu stöðuna í heimsfaraldrinum

Norrænir samgönguráðherrar á fjarfundi í dag - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, tók í gær þátt í fjarfundi með samgönguráðherrum Norðurlandanna. Þar var fjallað um stöðuna í heimsfaraldrinum og viðbrögð og ráðstafanir einstakra ríkja. Ráðherrarnir voru sammála um mikilvægi samstöðu, samstarfs og að læra af reynslu ríkjanna sem glíma við ólíkar aðstæður.

Í innleggi sínu fjallaði Sigurður Ingi um ráðstafanir íslenskra stjórnvalda og tvöfalda skimun á landamærum sem hefði reynst nokkuð vel. Hann greindi frá því að gjaldfrjáls skimun við komu til landsins hafi verið gerð að skyldu. Það hafi verið gert til að tryggja að sem allra fæst smit berist til landsins. Nú væri svo komið að nýgengi innanlandssmita væri það lægsta á Norðurlöndum, eins og sakir standa. Einnig væri byrjað að taka við vottorðum um bólusetningu eða mótefni.

Ráðherra greindi frá því að stjórnvöld hafi á síðasta ári tryggt lágmarksflug til og frá landinu með samningum við Icelandair. Það hafi fyrst verið til þriggja áfangastaða, Stokkhólms, London og Boston en frá miðju síðasta ári eingöngu til Boston. Markmið samninganna hafi verið að tryggja mikilvæga farþegaflutninga til og frá landinu á tímum heimsfaraldurs.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum