Hoppa yfir valmynd
2. febrúar 2021 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Þjóðarleikvangur fyrir frjálsar íþróttir: Starfshópur tekur til starfa

  - myndMYND/ Frjálsíþróttasamband Íslands
Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra hefur skipað starfshóp til að gera tillögur um fyrirkomulag þjóðarleikvangs fyrir frjálsar íþróttir. Starfshópnum er ætlað að afla upplýsinga um þarfir fyrir mannvirki til lengri tíma, greina mögulega nýtingu eldri mannvirkja eða þörf á nýjum með hliðsjón af reglugerð nr. 388/2018 um viðurkenningu þjóðarleikvanga í íþróttum. Einnig mun hópurinn skoða kostnaðarskiptingu slíkra verkefna, bæði hvað varðar mögulega uppbyggingu, rekstur og nýtingu.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra:

„Það gleður mig einstaklega mikið að setja þennan hóp af stað. Það eru svo margar íþróttagreinar í boði á Íslandi og við verðum að tryggja aðstöðu og aðgang að fjölbreytileika. Núna er rétti tíminn til að ráðast í verkefni af þessum toga, ekki síst í ljósi stefnu stjórnvalda að halda uppi eftirspurn í hagkerfinu. Framkvæmdir eins og þessar eru besta leiðin. Við viljum og verðum að halda Íslandi virku!“

Freyr Ólafsson, formaður hópsins og formaður Frjálsíþróttasambands Íslands:
„Frjálsíþróttahreyfingin er mjög sátt við þau skref sem stigin eru af ráðherra með skipan starfshópsins. Það hefur verið gott samtal á milli okkar í langan tíma og nú er verið að formfesta hlutina með starfshópnum. Reykjavíkurborg og borgarstjóri hafa einnig stutt þau markmið að nýtt frjálsíþróttasvæði rísi í Laugardal. Með góðu samhentu átaki getum við náð fram ekki eingöngu æfinga- og keppnisvelli á alþjóðavísu, heldur einnig fylgt eftir markmiðum um aukna lýðheilsu og heilbrigði almennings, þá sérlega barna- og unglinga. Frjálsíþróttasamband Íslands mun ekki láta sitt eftir liggja að fylgja eftir upplýsingum og viðmiðunum til að auðvelda starfshópnum störf sín, við erum öll tilbúin í rásblokkirnar í þessum efnum!“

Starfshópurinn mun ljúka störfum eigi síðar en 1. maí nk. en hann skipa auk Freys Ólafssonar:
Kristjana Ósk Birgisdóttir og Ómar Einarsson, tilnefnd af Reykjavíkurborg,
Þórey Edda Elísdóttir, tilnefnd af Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands,
Marta Guðrún Skúladóttir og Örvar Ólafsson, tilnefnd af mennta- og menningarmálaráðuneyti.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira