Hoppa yfir valmynd
3. febrúar 2021 Utanríkisráðuneytið

Lýsir yfir djúpstæðum vonbrigðum vegna dóms yfir Navalní

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra - myndUtanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór Þórðarsson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra lýsir yfir miklum vonbrigðum vegna dóms yfir rússneska stjórnarandstæðingnum Alexei Navalní og skorar á rússnesk stjórnvöld að láta hann lausan. Fulltrúar Íslands hjá Evrópuráðinu og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) hafa tekið undir gagnrýni á framgöngu rússneskra stjórnvalda gegn friðsömum mótmælendum.

Navalní var á dögunum handtekinn við komu til Rússlands en hann hafði dvalið í Þýskalandi eftir að hafa orðið fyrir eiturefnaárás í heimalandi sínu í fyrra. Dómstóll í Moskvu dæmdi hann svo í gær til óskilorðsbundinnar fangelsisvistar fyrir rof á skilorði vegna eldri dóms sem gagnrýndur hefur verið á alþjóðavettvangi.

Guðlaugur Þór Þórðarsson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra birti yfirlýsingu á Twitter í gær þar sem hann lýsti yfir miklum vonbrigðum með dóminn og skoraði á rússnesk stjórnvöld að láta Navalní lausan og aðra þá sem sætu ranglega í varðhaldi fyrir að mótmæla. Aldrei gæti liðist að þaggað væri niður í pólitískum mótherjum með því að loka þá á bak við lás og slá.

 Í dag var staða mannréttinda í Rússlandi tekin til umræðu í Evrópuráðinu. Ragnhildur Arnljótsdóttir, fastafulltrúi gagnvart Evrópuráðinu, áréttaði þannig áhyggjur Íslands af handtöku Navalní og þeirra sem hefðu nýtt tjáningarfrelsi sitt síðustu vikur og hvatti rússnesk stjórnvöld til þess að sleppa þeim úr haldi, virða tjáningar- og fundafrelsi og þannig Mannréttindasáttmála Evrópu. Þá var Ísland aðili að yfirlýsingu á fastaráðsfundi ÖSE 28. janúar þar sem ofbeldi gagnvart friðsömu andófi í Rússlandi var fordæmt og skorað á rússnesk stjórnvöld að leysa Navalní úr haldi og aðra þá, sem handteknir hafa verið.

Í lok nýliðins mánaðar skoraði Guðlaugur Þór Þórðarson á rússnesk stjórnvöld að standa við mannréttindaskuldbindingar sínar og virða borgarleg og stjórnmálaleg réttindi fólks. Leysa ætti úr haldi bæði fjölmiðlafólk og alla þá sem tekið hafa þátt í friðsömum mótmælum.

Fyrr í sama mánuði lýsti ráðherra yfir vonbrigðum vegna handtöku Alexei Navalní við komuna til Moskvu og skoraði á rússnesk stjórnvöld að láta hann tafarlaust lausan.  

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum