Hoppa yfir valmynd
4. febrúar 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Undirrita samstarfssamning við Rafíþróttasamtök Íslands

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, Ólafur Hrafn Steinarsson formaður RSI, Aron Ólafsson framkvæmdarstjóri RSI og Þórmundur Sigurbjarnason formaður rafíþróttadeildar Fylkis við undirritununa.  - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur undirritað samning við Rafíþróttasamtök Íslands um þróun og framkvæmd á þjálfaranámskeiði í rafíþróttum fyrir atvinnuleitendur. Markmiðið með verkefninu er að efla hæfni og færni einstaklinga sem eru atvinnulausir og skapa í framhaldinu varanleg störf fyrir þjálfara í rafíþróttum á Íslandi. Ráðuneytið mun veita 10 milljónum króna til verkefnisins.

Rafíþróttasamtök Íslands munu standa fyrir þjálfaranámskeiði í rafíþróttum miðað að einstaklingum með áhuga á tölvuleikjum, sem eru fyrir utan vinnumarkaðinn. Að námskeiði loknu fá nemendur ráðningarsamband við Rafíþróttasamtök Íslands til sex mánaða og verða sendir í verkefni hjá rafíþróttadeildum landsins. Þar munu þeir þjálfa og koma að uppbyggingu innviða í rafíþróttadeildum og til dæmis taka við hlutverki aðstoðaþjálfara rafíþróttadeilda hjá Ármanni, Fylki, KR, Þór Akureyri, ásamt fleiri deildum. Ráðningar verða framkvæmdar með aðstoð ráðningarstyrks frá Vinnumálastofnun.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra: „Ég er mjög spenntur fyrir þessu samstarfi við Rafíþróttasamtök Íslands en þarna erum við að slá tvær flugur í einu höggi. Búa til spennandi tækifæri fyrir atvinnulausa einstaklinga og samhliða að styrkja innviði rafíþrótta. Það er mikill kraftur og vöxtur í rafíþróttum á Íslandi, en greinin er ung og því eru innviðir félaga oft af skornum skammti. Þá hefur vantað einstaklinga sem hafa reynslu af þjálfun ungmenna, en afar mikilvægt er að við fáum þar inn einstaklinga með hæfni og reynslu.“

Ólafur Hrafn Steinarsson, formaður Rafíþróttasamtaka Íslands: „Þetta verkefni er gífurlega þýðingarmikið fyrir rafíþróttir á Íslandi og mikil viðurkenning á því frábæra starfi sem hefur verið unnið fyrir rafíþróttir á undanförnum árum. Hér á landi eru yfir 20 íþróttafélög sem stefna á að bjóða upp á besta mögulega umhverfið í rafíþróttum og er ég sannfærður um að þetta muni verka sem vítamínsprauta fyrir æskulýðsstarfið þar sem eru yfir 600 krakkar sem æfa nú rafíþróttir og fer þeim bara fjölgandi með fleiri félögum. Þetta verkefni gerir okkur kleift að standa einna fremst í flokki í þróun í þessum málaflokki á heimsvísu. Það eru spennandi tímar framundan í þessari nýju grein.“

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum