Hoppa yfir valmynd
5. febrúar 2021 Forsætisráðuneytið

Græn endurreisn rædd á Norðurslóðaráðstefnunni

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, ræddi afleiðingar Covid-19 og enduruppbyggingu í kjölfar faraldursins á norðurslóðum við forsætisráðherra Noregs, Svíþjóðar og Finnlands á Norðurslóðaráðstefnunni Arctic Frontiers í dag. Alþjóðasamstarf á Norðurslóðum var einnig rætt en þetta er 15. árið sem ráðstefnan, sem jafnan fer fram í Tromsö í Noregi, er haldin.

Katrín sagði mikilvægt að læra af faraldrinum og nýta tækifærið í endurreisninni til að byggja upp með betri, grænni og sjálfbærari hætti. Hún ræddi einnig jafnréttismál og áhrif faraldursins á heimilisofbeldi og nauðsyn þess að hafa jafnrétti í huga í uppbyggingunni. Að lokum ræddi hún mikilvægi þess að Norðurskautsráðið verði áfram vettvangur virks samtals með áherslu á frið og stöðugleika á Norðurslóðum.

Ísland hefur farið með formennsku í Norðurskautsráðinu undanfarin tvö ár en Rússar taka við keflinu í maí næstkomandi.  

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum