Hoppa yfir valmynd
5. febrúar 2021 Innviðaráðuneytið

Mælt fyrir frumvarpi til að auka svigrúm sveitarfélaga vegna áhrifa heimsfaraldurs

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, mælti í vikunni fyrir frumvarpi um breytingar á ýmsum lögum tengdum málefnum sveitarfélaga vegna áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru á íslenskt efnahagslíf og samfélag. Markmið frumvarpsins eru einkum þríþætt: Að auka svigrúm sveitarfélaga til að ráðast í auknar fjárfestingar, auðvelda sveitarfélögum að koma til móts við rekstraraðila í greiðsluerfiðleikum og að tryggja að sveitarstjórnir geti starfað og tekið  ákvarðanir við óvenjulegar aðstæður, m.a. á tímum heimsfaraldurs.

Svigrúm aukið til fjárfestinga og lánveitinga

Með frumvarpinu er svigrúm sveitarfélaga aukið til að ráðast í auknar fjárfestingar og mæta aðsteðjandi vanda í rekstri vegna þeirra áhrifa sem kórónuveirufaraldurinn hefur haft á íslenskt efnahagslíf og búskap hins opinbera. Það er m.a. gert með því að framlengja það tímabil sem sveitarfélögum er heimilt að víkja frá jafnvægisreglu og skuldareglu sveitarstjórnarlaga frá árinu 2022 til ársins 2025. Einnig eru lagðar til breytingar á lögum um Lánasjóð sveitarfélaga og sjóðnum veittar heimildir til útlána til sveitarfélaga vegna rekstrarvanda þeirra. Breytingarnar eru gerðar í samræmi við samkomulag ríkis og sveitarfélag um markmið og afkomu sveitarfélaga árin 2021-2025. 

Aukinn sveigjanleiki við innheimtu fasteignaskatta

Jafnframt er frumvarpinu sérstaklega ætlað að auðvelda sveitarfélögum sýna aukinn sveigjanleika við innheimtu og koma þannig til móts við rekstraraðila sem eiga í greiðsluerfiðleikum vegna faraldursins. „Ljóst er að mörg fyrirtæki, ekki síst í ferðaþjónustu, hafa orðið fyrir miklu tekjufalli vegna fækkunar ferðamanna og annarra beinna og óbeinna áhrifa heimsfaraldursins,“ sagði Sigurður Ingi í framsöguræðu sinni. Meðal annars er lagt til að lögveð með fasteignasköttum á atvinnuhúsnæði gildi í fjögur ár í stað tveggja. Einnig er sveitarfélögum veitt heimild til að lækka eða fella niður dráttarvexti á álagða fasteignaskatta vegna atvinnuhúsnæðis á árunum 2020-2022.

Starfhæfi sveitarstjórna í neyðarástandi

Frumvarpinu er loks ætlað að tryggja starfhæfi sveitarfélaga og auðvelda sveitarstjórnum að taka ákvarðanir við óvenjulegar aðstæður. Í fyrravor samþykkti Alþingi að bæta við bráðabirgðaákvæði við sveitarstjórnarlög um að ráðherra geti veitt sveitarstjórnum heimild til að víkja frá ákvæðum sveitarstjórnarlaga vegna neyðarástands. Á grundvelli ákvæðisins hefur ráðherra veitt sveitarfélögum ýmsar heimildir til að víkja tímabundið frá tilteknum ákvæðum sveitarstjórnarlaga sem fjalla um stjórn sveitarfélaga, svo sem skilyrði laganna um notkun fjarfundarbúnaðar á fundum sveitarstjórna og fastanefnda. Nú er lagt til að sambærilegt ákvæði verði lögfest með varanlegum hætti. 

„Það er mikilvægt er að sveitarstjórnir geti brugðist skjótt við ef neyðarástand kemur upp, svo sem af völdum náttúruhamfara eða farsótta. Kunna aðstæður þá að vera þannig að sveitarstjórn eða nefndir á vegum hennar eigi tímabundið erfitt með að framfylgja formreglum sveitarstjórnarlaga sem almennt ber að fara eftir við stjórn sveitarfélags. Til að tryggja að starfsemi sveitarfélagsins haldi áfram eins eðlilega og unnt er þrátt fyrir óvenjulegar aðstæður kann að vera nægilegt að sveitarstjórn verði heimilað að víkja frá einstökum ákvæðum sveitarstjórnarlaga meðan slíkt ástand varir,“ sagði Sigurður Ingi í framsöguræðu sinni.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum