Hoppa yfir valmynd
5. febrúar 2021 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Smærri fyrirtæki 82% þeirra sem nýta úrræði vegna heimsfaraldurs

Yfirgnæfandi meirihluti fyrirtækja sem nýttu sér úrræði stjórnvalda vegna heimsfaraldurs kórónuveiru árið 2020 voru með tíu launamenn eða færri. Þannig voru þau um 82% þeirra sem nýttu úrræðin, alls rúmlega 2.500 fyrirtæki. Markmið stuðnings við fyrirtæki er að verja störf eins og kostur er auk þess að skapa öfluga viðspyrnu þegar faraldrinum sleppir. Alls hefur nú hátt í 70 milljörðum króna verið varið til stuðnings við fyrirtæki og hefur um fjórðungur fyrirtækja í öllum stærðarflokkum nýtt sér einhver úrræðanna. Mikill fjöldi mjög smárra rekstraraðila fékk ekki síst stuðning í lokunarstyrkjum þegar ýmis persónuleg þjónusta var stöðvuð.

Þess má geta að um 86% fyrirtækja í landinu eru með tíu launamenn eða færri og þrjú af hverjum fjórum fyrirtækjum í landinu eru með færri en 5 starfsmenn.

 

Þetta kemur fram í samantekt fjármála- og efnahagsráðuneytisins úr gögnum Hagstofu Íslands sem sýnir nýtingu nokkurra af helstu stuðningsúrræðum stjórnvalda. Skoðuð var nýting á hlutabótum, frestun skattgreiðslna, greiðslu launa á uppsagnarfresti, lokunarstyrk, stuðningslánum og viðbótarlánum og tekjufallsstyrk, en byrjað var að greiða þá út í janúar á þessu ári. 

Gögnin sýna einnig að stuðningur stjórnvalda hefur stóraukist frá og með janúar, eftir að hafa minnkað nokkuð síðastliðið haust. Er sú aukning til komin vegna fjölda tekjufallsstyrkja sem afgreiddir hafa verið frá því um miðjan janúar en frá þeim tíma hafa vel á níunda hundrað rekstraraðila fengið greidda tekjufallsstyrki fyrir um fimm milljarða króna.

Síðustu mánuði hafa á fjórða þúsund rekstraraðilar og tugþúsundir einstaklinga nýtt sér ýmis úrræði stjórnvalda sem eru á annan tug talsins – styrki, lán, gjaldfresti og annan stuðning.


 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum