Hoppa yfir valmynd
8. febrúar 2021 Heilbrigðisráðuneytið

Ríkið sýknað í Hæstarétti af kröfu Grundar, Áss og Hrafnistu um greiðslu húsaleigu

Hæstiréttur hefur staðfest dóma Landsréttar þar sem ríkið er sýknað af kröfum Grundar hjúkrunarheimilis og Dvalarheimilisins Áss í Hveragerði annars vegar og Hrafnistu í Laugarási og Hraunvangi hins vegar, um að ríkið skuli greiða þeim endurgjald fyrir fasteignir sem þeir lögðu til undir starfsemi sína á árunum 2013 – 2016.

Rekstraraðilar Grundar, Áss og Hrafnistuheimilanna byggðu mál sitt einkum á því að þeir sinni þjónustu sem ríkinu beri að veita samkvæmt lögum. Því væri ríkinu skylt að greiða allan kostnað sem af þjónustunni hlýst, þar með talinn húsnæðiskostnað. Rekstraraðilarnir byggðu mál sitt jafnframt á því að brotið væri gegn eignarréttindum þeirra þar sem ríkið gerði þeim að leggja til rekstrarins húsnæði án endurgjalds og loks að ríkið gætti ekki jafnræðis við greiðslu húsnæðiskostnaðar til hjúkrunarheimila þar sem sumum rekstraraðilum væri látið í té endurgjaldslaust húsnæði undir samskonar starfsemi eða fengju greidda húsaleigu.

Niðurstaða Landsréttar og Hæstaréttar er samdóma um að hvorki hafi ríkið brotið gegn eignarréttindum né jafnræðisreglu gagnvart umræddum rekstraraðilum í þessu máli. Eins og rakið er í dómsniðurstöðum hefur bygging á húsnæði þeirra sem samið hafa við ríkið um rekstur hjúkrunar- og dvalarheimila verið fjármögnuð með ýmsum hætti í gegnum tíðina, í samræmi við þau lagafyrirmæli sem gilt hafa á hverjum tíma. Breyting var gerð á lögum um málefni aldraðra sem tók gildi árið 2005 og heimilaði greiðslu húsaleigu úr Framkvæmdasjóði vegna hjúkrunarheimila sem reist væru að undangengnu útboði og tæki til stofnkostnaðar annarra en ríkisins. Í dóminum er bent á að greiðsla húsaleigu samkvæmt þessari lagaheimild á einungis við vegna bygginga sem samþykkt hefur verið að reisa eftir 1. janúar 2005 og að rekstraraðili hafi fjármagnað byggingu hjúkrunarheimilis að öllu leyti án þátttöku hins opinbera og ekki þegið fjármagn til viðhalds húsnæðisins. Segir í dómsniðurstöðu að svo hafi ekki háttað til um umræddar fasteignir Grundar, Áss og Hrafnistuheimilanna sem hafi verið reistar með þeim fjárstuðningi opinberra aðila sem þeim stóð til boða samkvæmt heimildum. Auk þess hafi ríkið um langt skeið veitt fjárstuðning til endurbóta þeirra og viðhalds. Að þessu leyti verði stöðu rekstraraðilanna ekki jafnað saman við stöðu þeirra sem uppfylla skilyrði til leigugreiðslna úr Framkvæmdasjóði aldraðra samkvæmt fyrrnefndri lagabreytingu. 

Svigrúm löggjafans til að kveða á um nýjar leiðir

Í niðurstöðu Hæstaréttar segir að lokum að ætla verði löggjafanum „heimild og svigrúm til að kveða í lögum á um nýjar leiðir við aðkomu stefnda að uppbyggingu dvalar- og hjúkrunarheimila aldraðra, án þess að það teljist ólögmæt mismunun gagnvart rétti rekstraraðila sem fyrir eru og hófu rekstur að undangenginni annars konar fjármögnun bygginga. Áfrýjendur hafa ekki sýnt fram á að sá greinarmunur sem gerður er á greiðslum stefnda til rekstraraðila dvalar- og hjúkrunarheimila samkvæmt framansögðu hvíli á ólögmætum sjónarmiðum með þeim hætti að brotið sé gegn rétti þeirra samkvæmt 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar.“ 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira