Hoppa yfir valmynd
10. febrúar 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Pólitískt skipaðar barnaverndarnefndir lagðar niður - frumvarp í samráðsgátt stjórnvalda

Drög að að þingsályktunartillögu  um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda fyrir árin 2021- 2024 eru komin í samráðsgátt stjórnvalda - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur sett drög að frumvarpi  um breytingar á barnaverndarlögum í samráðsgátt stjórnvalda þar sem almenningur getur komið á framfæri ábendingum og tillögum.

Helstu breytingar sem lagar eru til í frumvarpinu eru að pólitískt skipaðar barnaverndarnefndir verða lagðar niður. Í stað barnaverndarnefndar verður starfrækt barnaverndarþjónusta og umdæmisráð barnaverndar á vegum sveitarfélaga. Þannig verður lögð áhersla á fagþekkingu innan barnaverndarþjónustu. Barnaverndarþjónusta ber ábyrgð á almennum ákvörðunum, stuðningi og  ráðstöfunum í barnavernd en aðkomu umdæmisráðs þarf í tilteknum ákvörðunum. Í umdæmisráðum sitja lögfræðingur, félagsráðgjafi og sálfræðingur. Lagt er til að skipunartími umdæmisráða falli ekki að kjörtímabilum sveitarstjórna og að ráðin verði skipuð til fimm ára í senn.

Þá er lagt til að barnaverndarumdæmi séu almennt ekki fámennari en 6.000 íbúar, þó geti sveitarfélög fengið undanþágu frá reglum um lágmarksíbúafjölda ef þau sýna fram á lágmarks fagþekkingu á barnavernd. Er þetta gert til þess að skapa forsendur fyrir faglegu barnaverndarstarfi í umdæmum landsins og tryggja að börn njóti faglegrar sérþekkingar.

Ráðherra skipaði starfshóp  í október 2020 sem falið var að fullmóta tillögur að framtíðarskipulagi barnaverndarþjónustu sveitarfélaga í tengslum við heildarendurskoðun barnaverndarlaga, en frá haustinu 2018 hefur verið unnið markvisst að umbótum í þágu barna í samvinnu stjórnarráðsins, þingmannanefndar um málefni barna og Sambands íslenskra sveitarfélaga með aðkomu sérfræðinga í barnavernd. 

Frekari upplýsingar um þær breytingar sem eru boðaðar er að finna í drögum frumvarpsins í samráðsgátt.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra: „Frá því ég tók við ráðherraembætti hafa málefni barna verið algjört forgangsverkefni.  Ég er mjög stoltur af þessari kerfisbreytingu enda eiga pólitískar nefndir ekki að taka ákvarðanir í barnaverndarmálum.  Þetta frumvarp er unnið í góðu og miklu samstarfi við fjölmarga aðila, bæði á þinginu og við fagaðila í málaflokknum, og markmiðið hjá okkur öllum er það sama – að barnið verði hjartað í kerfinu. Þessar breytingar eru hluti af risavöxnu verkefni  þar sem við erum að gera miklar breytingar á kerfinu og ég hvet sem flesta að koma á framfæri ábendingum og tillögum í samráðsgáttinni.”

Frumvarpið verður í samráðsgátt stjórnvalda til og með 24. febrúar næstkomandi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum