Hoppa yfir valmynd
11. febrúar 2021 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

12 milljarðar í lán með ríkisábyrgð til fyrirtækja í rekstrarvanda vegna Covid-19

Fyrirtæki í rekstrarvanda vegna Covid-19 fengu lán með ríkisábyrgð fyrir tæpa 12 milljarða króna á árinu 2020 en lánin voru einkum nýtt af fyrirtækjum í ferðaþjónustu.

Alls voru um 9 milljarðar veittir í stuðningslán, en lánin nýtast sérstaklega minni rekstraraðilum sem orðið hafa fyrir miklum samdrætti. Ferðaþjónustufyrirtæki fengu um 61% lánanna.

 

Markmið stuðningslána er að vinna gegn tímabundnum lausafjárvanda smærri fyrirtækja sem leitt gæti til enn frekari efnahagssamdráttar. Stuðningslán geta að hámarki orðið 40 m.kr. á hvern rekstraraðila og þar af er hægt að fá 10 milljónir króna með fullri ríkisábyrgð.

Heildarfjárhæð veittra viðbótarlána (brúarlána) nam á árinu 2020 2,8 milljörðum króna. Markmið viðbótarlána er að styðja við fyrirtæki sem verða fyrir tímabundnu tekjufalli og lausafjárvanda vegna kórónuveiru. Viðbótarlánin, líkt og stuðningslánin, hafa að mestum hluta verið veitt fyrirtækjum í ferðaþjónustu og runnu um 79% viðbótarlána þeirra til slíkra fyrirtækja árið 2020.

Stuðnings- og viðbótarlán eru hluti af efnahagsaðgerðum stjórnvalda vegna heimsfaraldursins. Fyrirtæki fá slík lán afgreidd hjá sínum viðskiptabanka sem veitir nánari upplýsingar um umsóknarfresti, en veiting stuðningslána er möguleg til 31. maí á þessu ári. Tekið er á móti umsóknum um stuðningslán á Ísland.is en stjórnvöld sömdu við Arion banka, Íslandsbanka, Kviku, Landsbankann og Sparisjóðina um framkvæmd lánanna.

Tugþúsundir nýtt ýmis úrræði

Síðustu mánuði hafa á fjórða þúsund rekstraraðilar og tugþúsundir einstaklinga nýtt sér ýmis úrræði stjórnvalda sem eru á annan tug talsins – styrki, lán, gjaldfresti og annan stuðning.

Yfirgnæfandi meirihluti fyrirtækja sem nýttu sér úrræði stjórnvalda vegna faraldursins árið 2020 voru með tíu launamenn eða færri. Þannig voru þau um 82% þeirra sem nýttu úrræðin, alls rúmlega 2.500 fyrirtæki. Markmið stuðnings við fyrirtæki er að verja störf eins og kostur er auk þess að skapa öfluga viðspyrnu þegar faraldrinum sleppir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum