Hoppa yfir valmynd
11. febrúar 2021 Utanríkisráðuneytið

Þrjátíu ár frá viðurkenningu Íslands á sjálfstæði Litáens

Guðlaugur Þór Þórðarson og Inga Minelgaité, kjörræðismaður Litáens á Íslandi. - myndUtanríkisráðuneytið

Í dag eru þrjátíu ár liðin frá því að Ísland viðurkenndi fyrst ríkja sjálfstæði Litáens eftir lok kalda stríðsins. Af því tilefni færði Inga Minelgaité, kjörræðismaður Litáens á Íslandi, Guðlaugi Þór Þórðarsyni, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, blóm og þakkir.

11. febrúar 1991 ítrekaði Alþingi viðurkenningu á sjálfstæði Litáens fyrir seinna stríð. Ályktun Alþingis kom í kjölfar ferðar utanríkisráðherra Íslands til Litáen, og síðar Lettlands og Eistlands, tæpum mánuði fyrr. Vytautas Landsbergis, þáverandi utanríkisráðherra Litaéns og aðrir í litáísku sjálfstæðishreyfingunni voru Íslendingum afar þakklátir. Þessarar sögu er minnst með ýmsu móti í Litáen. Í miðborg Vilníus er til dæmis að finna götu sem var í þakklætisskyni nefnd Íslandsstræti (Islandijos gatvė) og þar er einnig minningarskjöldur um stuðning Íslands.

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, segir að þessi saga sé honum enn í fersku minni. „Íslendingar eru stoltir af hlutverki sínu í sjálfstæðisbaráttu Litáens. Hugrekki og staðfesta Litáa á umbrotatímum undir lok kalda stríðsins voru þau gildi sem vörðuðu leið þjóðarinnar í átt til frelsis og lýðræðis,“ segir Guðlaugur Þór.

Ísland og Litáen eiga í nánu samstarfi á vettvangi Norðurlanda og Eystrasaltsríkja (NB8), Atlantshafsbandalagsins, Sameinuðu þjóðanna, Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE), Evrópuráðsins og Evrópska efnahagssvæðisins (EES) og deila grundvallarhagsmunum nær og fjær.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira