Hoppa yfir valmynd
11. febrúar 2021 Innviðaráðuneytið

Mikilvægt að standa vörð um norrænt samstarf á tímum faraldurs

Samstarfsráðherrar Norðurlanda á fjarfundi. - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda, sat í dag á fjarfund samstarfsráðherra Norðurlanda. Þetta var fyrsti fundur ársins undir stjórn Finna sem tóku við formennsku í Norrænu ráðherranefndinni í upphafi ársins úr hendi Dana.

 Ráðherrarnir voru sammála um að standa verði vörð um norrænt samstarf á tímum faraldurs en á fundinum var rætt um leiðir til að efla samstöðu við slíkar aðstæður. Kórónuveiran hafi haft meiriháttar áhrif á ferðafrelsi á Norðurlöndum, sérstaklega fyrir fólk og fyrirtæki á landamærasvæðum. Þetta ástand geti til lengri tíma hafa áhrif á tiltrú og traust fólks á norrænu samstarfi og einkum á landamærasvæðunum ef ekkert væri að gert.

„Eins og komið hefur svo glöggt í ljós á landamærasvæðum hafa mismunandi tilmæli milli landa leitt af sér vandamál og erfiðleika, sérstaklega fyrir fólk og fyrirtæki sem búa og starfa á þessum svæðum,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra. „Ástandið hefur eðlilega litað skoðanir fólks á norrænu samstarfi og markmiði okkar að gera löndin að samþættasta svæði heims. Við verðum að tryggja að þessi áhrif verði ekki langvarandi. Staða mála staðfestir enn á ný mikilvægi þess að norrænu ríkin efli samvinnu sína á erfiðleikatímum og dragi lærdóm af þessu fyrir framtíðina.“

Öryggi birgða og viðbúnaðargeta

Á fundinum var einnig fjallað um aukið samstarf Norðurlanda varðandi öryggi birgða og viðbúnaðargetu. Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra, fagnaði því að þetta væri eitt af áherslumálum í formennsku Finna í ráðherranefndinni. „Við höfum sé það í yfirstandandi faraldri hversu mikilvægt er að þjóðríki vinni saman. Við þurfum að styrkja samstarf okkar og vinna áfram á vettvangi ráðherranefndarinnar til að tryggja sem mest öryggi birgða og viðbúnaðargetu á tímum eins og þessum,“ segir samstarfsráðherra.

Þá voru á dagskrá fundarins fjármál skrifstofunnar og undirbúningur fyrir gerð fjárlaga Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir næsta ár. Ráðherrarnir samþykktu að heildarrammi fjárlaga á árinu 2022 verði 969.023 millj. DKK á verðlagi ársins 2021. Í umræðu um þessi mál lögðu ráðherrarnir áherslu á að mikilvægi þess að fjármunum verði ráðstafað í samræmi við framtíðarsýn norræns samstarfs, að Norðurlöndin verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims fyrir árið 2030.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum