Hoppa yfir valmynd
11. febrúar 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ráðgjafarstofa sett á laggirnar til að tryggja betri þjónustu við innflytjendur

Kolbeinn Óttarsson Proppé, Joanna Marcinkowska og Ásmundur Einar Daðason við opnunina - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, opnaði í dag Ráðgjafarstofu innflytjendamála. Markmiðið með stofnun Ráðgjafarstofunnar er að tryggja betri og markvissari ráðgjöf til innflytjenda. Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri Grænna, var fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögu um málið sem var samþykkt í júní 2019.

Hlutverk Ráðgjafarstofunnar er að bjóða upp á aðgengilega ráðgjöf, leiðbeiningar og upplýsingar fyrir innflytjendur um nauðsynlega þjónustu, réttindi þeirra og skyldur. Ráðgjafarstofunni er jafnframt ætlað að vera samstarfsvettvangur milli stofnana ríkis, sveitarfélaga og hagsmunaaðila svo sem stéttafélaga og félagasamtaka, og er stofan í nánu samstarfi við Fjölmenningarsetur, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Umboðsmann skuldara, Reykjavíkurborg og Vinnumálastofnun. Þá getur starfsfólk Ráðgjafarstofunnar aflað frekari upplýsinga frá samstarfsaðilum og komið á tengslum til þess að flýta fyrir þjónustu og auðvelda fólki að fá rétta þjónustu.

Á Ráðgjafarstofunni starfa fimm starfsmenn sem hafa fjölbreytan bakgrunn og munu geta veitt ráðgjöf á sjö tungumálum en auk þess mun einstaklingum bjóðast ráðgjöf í gegnum túlkaþjónustu á öðrum tungumálum. Opnuð hefur verið vefsíða, newiniceland.is, þar sem einstaklingar geta bæði sent inn erindi, panta viðtal eða spjalla við ráðgjafanna.

Ráðgjafarstofan er hugsuð sem reynsluverkefni til níu mánaða og að sex mánuðum liðnum verður verkefnið metið með tilliti til framtíðarfyrirkomulags. Vef stofunnar má finna hér

Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra: „Við þurfum að gera upplýsingar aðgengilegar á einum stað fyrir fólk sem flytur hingað til landsins sem mun gera alla þátttöku og virkni mun auðveldari. Á Ráðgjafarstofnunni geta allir innflytjendur fengið ráðgjöf, óháð því hvaðan þeir koma eða hvar á landinu þeir búa. Með því að bjóða upp á viðtöl og upplýsingar á einum stað líkt og á með Ráðgjafarstofu innflytjenda tryggjum við betri þjónustu við þann hóp sem hana þarf samhliða því að létta á því álagi sem skapast á aðrar þjónustustofnanir.”

 

 

 

  • Ráðgjafarstofa sett á laggirnar til að tryggja betri þjónustu við innflytjendur - mynd úr myndasafni númer 1

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum