Hoppa yfir valmynd
11. febrúar 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Reykjanesbær fyrsta sveitarfélagið sem gerir samning við félagsmálaráðuneytið um samræmda móttöku við flóttafólk

Félagsmálaráðuneytið og Reykjanesbær hafa undirritað samning um samræmda þjónustu við flóttafólk en með samningnum mun sveitarfélagið veita öllu flóttafólki sambærilega þjónustu. Reykjanesbær er fyrsta sveitarfélagið sem gerir slíkan samning við ráðuneytið.

Frá árinu 2004 hefur Reykjanesbær lagt áherslu á þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd, ásamt því að vera leiðandi í þjónustu við flóttafólk sem hefur komið á eigin vegum. Hingað til hefur almennt verið haldið betur utan um flóttafólk sem hefur komið í hópum í boði ríkisstjórnarinnar en þá sem komið hafa á eigin vegum til landsins. Með samningnum mun Reykjanesbær vinna að markvissari stuðningi við flóttafólk eftir að umsækjendur fá leyfi til dvalar á Íslandi.

Mun Reykjanesbær auglýsa eftir sérfræðingum í málefnum flóttafólks sem starfa hjá velferðarsviði sveitarfélagsins í nánu samstarfi við aðra þjónustuaðila, eins og skóla og heilsugæslu.

Unnið hefur verið að því að samræma móttöku flóttafólks um langt skeið en flóttafólk sem kemur á eigin vegum hefur fjölgað umtalsvert á síðustu árum. Í þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda frá árinu 2016-2019 var ákveðið að samræma og bæta þjónustu við flóttafólk sem kom hingað á eigin vegum. Jafnframt er það á grundvelli ríkisstjórnarsáttmálans að tryggð sé samfella í þjónustu og aðstoð við þá sem fá vernd á Íslandi. Á grundvelli þeirra ákvörðunar var sett á laggirnar sem nefnd sem vann að tillögum um útfærslu á verkefninu undir formennsku Kristjáns Sturlusonar. Nefndinni skilaði tillögum sínum í janúar 2019 þar sem meðal annars var lagt til að gerðir yrðu samningar við sveitarfélög um móttöku á flóttafólk, Vinnumálastofnun var falið aukið hlutverk með því að annast samfélagsfræðslu og íslenskukennslu og Fjölmenningarsetrið var falið stoðhlutverk við sveitarfélög og stofnanir ásamt því tengja saman flóttafólk við móttökusveitarfélög.  

Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra: „Við í félagsmálaráðuneytinu erum gríðarlega ánægð með þennan tímamótasamning og fögnum þessum stóru, jákvæðu skrefum í málefnum flóttafólks. Það er mikilvægt að við tökum á móti flóttamönnum með markvissum stuðningi sem hjálpar þeim að aðlagast nýju lífi og samfélagi og það verður spennandi að fylgjast með næstu skrefum í þessum málum í Reykjanesbæ.“

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum