Hoppa yfir valmynd
12. febrúar 2021 Forsætisráðuneytið, Fjármála- og efnahagsráðuneytið, Innviðaráðuneytið

Uppbygging atvinnulífs á Seyðisfirði

Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum í morgun að gera samkomulag til þriggja ára við Múlaþing og Austurbrú, samstarfsvettvang stjórnsýslu á Austurlandi um uppbyggingu atvinnulífs á Seyðisfirði. Verkefninu fylgir 215 milljóna framlag á næstu þremur árum.

Atvinnulífið á Seyðisfirði stendur frammi fyrir fordæmalausum og fjölþættum vanda í kjölfar hamfaranna í desember. Vandinn snýr m,eðal annars að rekstrarumhverfi og húsnæðismálum, en hamfarirnar höfðu veruleg áhrif á fjölda fyrirtækja sem sum hver hafa misst húsnæðið og hætta á að einhver þeirra hverfi úr bænum.

Sveitarfélagið Múlaþing og Austurbrú hafa staðið fyrir umfangsmikilli greiningu á atvinnulífinu á Seyðisfirði sem hefur leitt í ljós að mikilvægt er styðja þétt við heimamenn, ekki hvað síst á allra næstu mánuðum.

Samkomulagið sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur undirbúið byggist á tillögum Múlaþings og Austurbrúar. Markmið þess er að styðja við atvinnulíf og samfélag á Seyðisfirði. Byggðastofnun er tilbúin til að vera til ráðgjafar og horft verður til reynslu og aðferðafræði Brothættra byggða. Heildarframlagið er sem fyrr segir 215 milljónir. Árið 2021 verður framlagið 105 millj. kr. og 55 millj. kr. hvort ár, 2022 og 2023. Gert er ráð fyrir að fjármagninu verði m.a. varið í ráðningu rekstrarráðgjafa, í endurskipulagningu,  í nýsköpunar og þróunarsjóð og leigustuðning.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum