Hoppa yfir valmynd
15. febrúar 2021 Heilbrigðisráðuneytið

COVID-19: Kröfur til skyndigreiningarprófa

COVID-19: Kröfur til skyndigreiningarprófa - myndStjórnarráðið

Heilbrigðisráðherra hefur birt í Stjórnartíðindum fagleg fyrirmæli embættis landlæknis um skyndigreiningarpróf sem heimilt verður að nota hér á landi. Aðeins verður heimilt að nota próf sem mæla mótefnavaka (antigen) og þá einungis þau skyndigreiningarpróf sem hlotið hafa tilskilin leyfi heilbrigðisráðuneytisins. Gerð er krafa um að jákvæðar niðurstöður úr skyndigreiningarprófi verði staðfestar með RT-PCR prófi til að tryggja raðgreiningu veirunnar.

RT-PCR próf er sú greiningaraðferð sem eingöngu hefur verið notuð hér á landi til þessa, til að greina hvort fólk sé með veiruna sem veldur COVID-19. Þetta er nákvæmasta prófið sem völ er á til að greina veiruna en það er hins vegar dýrara en skyndigreiningarprófin og lengri tíma tekur að fá niðurstöður. Niðurstöður úr einstökum skyndigreiningarprófum geta fengist á innan við 30 mínútum.

Embættið mælir því með að notkun RT-PCR prófsins verði meginreglan og að skyndigreiningarpróf verði aðeins notuð í undantekningartilvikum vegna sérstakra aðstæðna. Dæmi um  slíkar aðstæður geta t.d. verið ef fólk þarf að framvísa nýlegu vottorði um neikvæða niðurstöðu veiruprófs á landamærum erlendis. Einnig gætu slík próf verið hagnýt um borð í skipum ef grunur vaknar um COVID-smit um borð og fleira mætti telja.

Eins og áður segir er rík áhersla lögð á að ef niðurstaða skyndigreiningarprófs reynist jákvæð skuli niðurstaðan sannreynd eins fljótt og auðið er með RT-PCR prófi til að tryggja raðgreiningu veirunnar. 

Leyfi fyrir notkun skyndigreiningarprófa

Einungis er heimilt að nota skyndigreiningapróf sem hlotið hafa tilskilin leyfi heilbrigðisráðuneytisins í samræmi við reglugerð nr. 415/2004 um starfsemi rannsóknastofa sem stunda greiningu á sjúkdómum sem sóttvarnalög taka til. Um skyndipróf er fjallað í 3. gr. reglugerðarinnar. Markmiðið með þessu er að tryggja áreiðanleika rannsóknarniðurstaðna og að nauðsynlegar upplýsingar berist til sóttvarnalæknis í samræmi við kröfur sóttvarnalaga.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum