Hoppa yfir valmynd
16. febrúar 2021 Forsætisráðuneytið

Skýrsla um kosti og galla þess að fela dómstólum verkefni kærunefnda á stjórnsýslustigi

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kynnti á fundi ríkisstjórnar sl. föstudag  skýrslu um kosti og galla þess að leggja niður kærunefndir á stjórnsýslustigi og fela ráðuneytum eða dómstólum verkefni þeirra. Skýrslan var unnin af þeim Páli Hreinssyni, forseta EFTA-dómstólsins, og Kristínu Benediktsdóttur, dósent við lagadeild Háskóla Íslands.

Skýrslan var m.a. unnin með hliðsjón af niðurstöðum skýrslu Páls um sjálfstæðar stjórnsýslunefndir sem skilað var til forsætisráðherra í desember 2019. Þeirri skýrslu sem nú hefur verið skilað er ætlað að vera grundvöllur að frekari umræðu og eftir atvikum ákvarðanatöku í framhaldinu.

Niðurstaða skýrsluhöfunda er að ef fela eigi dómstólum verkefni stjórnsýslunefnda, komi þar helst til álita verkefni kærunefnda sem fást eingöngu við úrlausn réttarágreinings milli annars vegar einstaklinga eða lögaðila og hins vegar stjórnvalds. Nú eru starfandi fjórtán slíkar nefndir.

Í skýrslunni eru dregnir fram helstu kostir og gallar við leggja niður slíkar nefndir og færa dómstólum verkefni þeirra.

Helstu gallar:

  1. Það kunni að draga úr réttaröryggi þar sem dómarar hafi ekki sömu sérfræðiþekkingu og reynslu og nefndarmenn kærunefnda af úrlausn mála á sviði hlutaðeigandi málaflokks.
  2. Það sé kostnaðarsamara að kveðja til tvo sérfróða meðdómsmenn við úrlausn máls hjá dómstólum en að fela þriggja manna sérfræðinganefnd á stjórnsýslustigi úrlausn þess.
  3. Kostnaður sem leggst á einstaklinga við meðferð mála fyrir dómi er mun meiri en fyrir meðferð sambærilegra mála hjá stjórnsýslunni.

Helstu kostir:

  1. Dómstólar starfa eftir ítarlegum og lögfestum samræmdum málsmeðferðarreglum sem almennt hafa fengið fastmótað og fyrirsjáanlegt inntak í mörgum tilvikum eftir margra ára beitingu þeirra.
  2. Óhlutdrægni og sjálfstæði dómara er betur tryggt en nefndarmanna stjórnsýslunefnda.
  3. Stór hluti deilumála um gildi stjórnvaldsákvarðana varðar túlkun þeirrar lagaheimildar sem ákvörðun er byggð á. Dómstólar eru vel til þess fallnir að leysa þau mál enda eru dómarar sérfræðingar í túlkun réttarheimilda og hafa síðasta orðið um það hvernig réttarheimild er rétt túlkuð í hverju tilviki.
  4. Dómstólar hafa almennt betri starfsaðstöðu en kærunefndir þar sem móttaka skjala, skjalastjórn, símsvörun og önnur tengd atriði eru í föstum skorðum.

Unnið verður úr niðurstöðum skýrslunnar í forsætisráðuneytinu í samráði við hlutaðeigandi ráðuneyti og mun sú vinna m.a. fela í sér gerð viðmiða um hvenær rétt er að koma á fót sjálfstæðum stjórnsýslunefndum sem og í hvaða tilvikum rétt er að verkefni verði færð frá nefndum til ráðuneyta.

Skýrsla um dómstóla og stjórnsýslunefndir

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum