Hoppa yfir valmynd
18. febrúar 2021 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Frumvarp um breytingar á aðgangsskilyrðum háskóla: Aukið jafnræði milli bók- og starfsnáms

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra mælti í dag fyrir frumvarpi um breytingar á lögum um háskóla. Markmið frumvarpsins er að jafna möguleika framhaldsskólanema sem ljúka prófi af þriðja hæfniþrepi samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskólatil til frekara náms. Frumvarpið felur þar með í sér aukið jafnræði til náms á háskólastigi óháð mismunandi námsleiðum framhaldsskólanema og lokaprófum þeirra.

Í ljósi breytinga á tilhögun og skipulagi náms í framhaldsskólum er talið nauðsynlegt að jafna stöðu nemenda sem náð hafa tiltekinni hæfni og lokið námi með öðru lokaprófi en stúdentsprófi. Í ljósi breytinga á inntaki náms á ólíkum viðurkenndum námsbrautum í framhaldsskóla og umræðu um stöðu starfsnámsnema, er lagt til með frumvarpinu, að horft verði til ólíkra lokaprófa og þau metin í samræmi við þá hæfni og þekkingu sem þau veita nemendum.

„Á tímum örra tæknibyltinga verða hraðar breytingar á atvinnulífi okkar og í því samhengi er afar brýnt að við eflum iðn- og tækninám á öllum skólastigum. Lagabreytingum þessum er ætlað að ýta undir að starfsnámsnemendur fái notið hæfni, þekkingar og færni sem þeir hafa öðlast með ólíkum lokaprófum frá mismunandi framhaldsskólum, og gera þeim auðveldara að sækja um nám á háskólastigi. Því tel ég þetta mikilvægt réttlætismál og skref til hagsbóta fyrir samfélagið allt,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Málinu hefur nú verið vísað til allsherjar- og menntamálanefndar.

Frumvarpið má lesa hér.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira