Hoppa yfir valmynd
18. febrúar 2021 Utanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór tók þátt í fjarfundi varnarmálaráðherra

Frá fundi varnarmálaráðherra Atlantshafsbandalagsins í gær. - mynd

Fælingar- og varnarviðbúnaður Atlantshafsbandalagsins, styrking pólitískrar samvinnu og samheldni bandalagsríkjanna auk málefna Afganistans og Íraks voru meðal umræðuefna á tveggja daga fjarfundi varnarmálaráðherra bandalagsins sem lauk í dag. Var þetta fyrsti ráðherrafundur bandalagsríkja eftir að ný ríkisstjórn tók við stjórnartaumunum í Bandaríkjunum.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri bandalagsins, hefur undanfarna mánuði lagt drög að tillögum undir merkjum NATO 2030 um hvernig styrkja megi Atlantshafstengslin, pólitíska samvinnu og samheldni í röðum bandalagsríkjanna. „Það er mikilvægt að þessar tillögur tvíefli þetta mikilvæga bandalag, svo það verði enn betur í stakk búið til að mæta öryggisáskorunum nútíðar og framtíðar,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra sem tók þátt í fundinum. Hann segir til dæmis brýnt að bregðast við nýjum ógnum sem örar tækniframfarir feli í sér. Þá sé ört vaxandi skilningur á tengslum loftslagsbreytinga og öryggismála ánægjuleg þróun í ljósi áherslu Íslands á loftslagsmál í störfum bandalagsins.

Ráðherrarnir ræddu áskoranir í öryggismálum með þátttöku varnarmálaráðherra Finnlands og Svíþjóðar og utanríkismálastjóra Evrópusambandsins. „Aukið samstarf við nágranna- og vinaþjóðir okkar á vettvangi Atlantshafsbandalagsins endurspeglar þær breytingar sem orðið hafa á öryggisumhverfi okkar, sem er mun óstöðugra og ófyrirsjáanlegra en áður,“ segir Guðlaugur Þór. Á fundinum kom fram að framlög Evrópuríkja bandalagsins og Kanada til varnarmála hækki á árinu, sjöunda árið í röð, í samræmi við skuldbindingar ríkjanna frá leiðtogafundinum í Wales árið 2014, og ákvarðanir um jafnari byrðar bandalagsríkjanna yfir Atlantsála.

Varnarmálaráðherrarnir ræddu jafnframt stöðu öryggismála og friðarviðræðna í Afganistan og framtíð verkefna bandalagsins þar í landi. „Það er eining um að Afganistan megi ekki verða griðastaður alþjóðlegra hryðjuverkasamtaka á ný og að standa þurfi vörð um þann árangur sem hefur náðst, ekki síst varðandi réttindi kvenna og barna og í menntamálum,“ segir Guðlaugur Þór.

Á fundinum var samþykkt að Atlantshafsbandalagið taki aukinn þátt í þjálfunarverkefnum í Írak. Frá árinu 2018 hefur það, að beiðni íraskra stjórnvalda, aðstoðað við að byggja upp getu heimamanna til að sinna öryggi og vörnum landsins og hindra uppgang hryðjuverkasamtakanna ISIS. Líkt og í Afganistan snýr verkefnið alfarið að því að veita sérhæfða þjálfun og ráðgjöf en bandalagið tekur ekki þátt í hernaðaraðgerðum í þessum ríkjum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum