Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 2021 Heilbrigðisráðuneytið

COVID-19: Bólusetningardagatal

Frá bólusetningu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins 29. desember 2020 - myndStjórnarráðið

Heilbrigðisráðuneytið í samvinnu við sóttvarnalækni hefur útbúið bólusetningardagatal vegna COVID-19, miðað við fyrirliggjandi upplýsingar um afhendingu bóluefna og áætlanir þar að lútandi. Dagatalinu er ætlað að gefa fólki vísbendingu um hvenær líklegt er að bólusetning hefjist í einstökum forgangshópum. Dagatalið er birt með fyrirvara, enda að hluta til um áætlun að ræða sem mun taka breytingum. Gangi forsendur eftir lýkur bólusetningu gegn COVID-19 hér á landi fyrir lok júní næstkomandi.


Þrjú bóluefni eru með markaðsleyfi og í notkun hér á landi. Þetta eru bóluefni Pfizer, AstraZeneca og Moderna. Fyrir liggur staðfest áætlun um afhendingu þessara lyfja til loka mars. Þá liggur einnig fyrir að þessir framleiðendur áforma að hafa fyrir lok júní afhent bóluefni fyrir samtals 190.000 einstaklinga.

Áætlun um afhendingu þriggja bóluefna til viðbótar

Á grundvelli Evrópusamstarfs hefur Ísland gert samninga um kaup á Curavac og Janssen til viðbótar þeim þremur efnum sem þegar eru komin með markaðsleyfi. Þá er Evrópusambandið að ljúka samningi um bóluefni Novavax sem Ísland fær hlutdeild í. Öll þessi lyf eru komin í áfangamat hjá Evrópsku lyfjastofnuninni og þess vænst að þau fái markaðsleyfi innan tíðar. Í samningum um þessi bóluefni kemur fram hve mikið framleiðendur þeirra áætla að geta afhent á öðrum ársfjórðungi, þ.e. fyrir lok júní. Bólusetningardagatalið tekur mið af þessum upplýsingum en gögn hvað þetta varðar eru birt með fyrirvara um að markaðsleyfi liggja ekki fyrir og staðfestar afhendingaráætlanir ekki heldur. 

Reglubundin uppfærsla bólusetningardagatal

Heilbrigðisráðuneytið í samvinnu við sóttvarnalækni mun uppfæra bólusetningardagatal eftir því sem bólusetningunni vindur fram og eftir því sem nýjar upplýsingar berast um bóluefni og afhendingu þeirra.

 

 
 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum