Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 2021 Heilbrigðisráðuneytið

Endurhæfingarteymi tekið til starfa við Heilbrigðisstofnun Austurlands

Heilbrigðisstofnun Austurlands - myndMynd: Heilbrigðisráðuneyti

Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) hefur sett á fót þverfaglegt endurhæfingarteymi sem mun styðja við og efla endurhæfingu fyrir íbúa á Austurlandi. Stofnun teymisins er liður í framkvæmd aðgerðaáætlunar um endurhæfingu til fimm ára sem heilbrigðisráðherra kynnti í lok síðasta árs. Áætlunin gerir ráð fyrir að stofnuð verði endurhæfingarteymi í öllum heilbrigðisumdæmum landsins og er teymið við HSA það fyrsta sem tekur til starfa.

Aðgerðaáætlun um endurhæfingu gildir til ársins 2025. Samkvæmt áætluninni verður endurhæfingarhugtakið og stig endurhæfingar skilgreind í reglugerð í samræmi við skilgreiningar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Gert er ráð fyrir að öll endurhæfingarstarfsemi í landinu falli undir ábyrgðarsvið heilbrigðisráðuneytisins og að sett verði á fót endurhæfingarráð. Rík áhersla er lögð á aukið hlutverk heilsugæslu í endurhæfingu og jafnframt er stefnt að því að stórauka fjarheilbrigðisþjónustu á þessu sviði.

Teymið á Austurlandi

Endurhæfingarteymið við HSA er þverfaglegt, mannað endurhæfingarlækni, sjúkraþjálfurum, félagsráðgjafa og iðjuþjálfa. Fyrst um sinn mun teymið sinna einstaklingum með þráláta verki vegna stoðkerfisvanda. „Markmiðið er að aðstoða fólk við að auka virkni sína og vellíðan þannig að einstaklingar séu betur í stakk búnir að takast á við áskoranir daglegs lífs. Það er mat HSA að efling endurhæfingar sé eitt af sóknarfærum heilbrigðisþjónustu á landinu öllu enda rímar það vel við heilbrigðisstefnu til ársins 2030 sem og heilsueflingu sem mikil þörf er á að efla vítt og breitt“ segir Guðjón Hauksson, forstjóri HSA.

„Það er vaxandi vitund meðal fagfólks og í samfélaginu öllu um mikilvægi forvarna og endurhæfingar. Þetta á að vera hluti af þjónustu opinbera heilbrigðiskerfisins með áherslu á að grípa inn í aðstæður fólks þegar endurhæfingar er þörf. Með því móti getum við aukið lífsgæði fólks og fyrirbyggt eða dregið úr líkum á því að fólk tapi færni eða getu til virkrar þátttöku í daglegu lífi. Síðast en ekki síst tryggjum við með þessu móti sem jafnastan aðgang fólks að þessari mikilvægu þjónustu óháð búsetu og efnahag“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum