Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 2021 Dómsmálaráðuneytið

Hönnunarsprettur í Réttarvörslugátt

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra  - mynd
Síðustu daga fór fram svokallaður hönnunarsprettur fyrir ákærur í sakamálum sem er hluti verkefnisins Réttarvörslugátt. Stafræn réttarvörslugátt er verkefni sem er leitt af Dómsmálaráðuneytinu og snýst um að útbúa samskiptagátt stofnana í réttarvörslukerfinu, m.a. lögreglu, ákæruvalds, dómstóla og fangelsa. Hún mun leysa af hólmi marga núverandi samskiptaferla frá því fyrir tíma netsins sem eru pappírs- og skjalamiðaðir.

Til að þekkja hverjar þarfir notenda kerfisins eru í fór vinnuhópur sem hefur unnið að verkefninu frá því síðastliðið haust af stað í svokallaðan hönnunarsprett. En það var Kolibri sem leiddi vinnu hópsins sem í voru fulltrúar frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, Héraðssaksóknara, Héraðsdómi Reykjavíkur, Dómsstólasýslunni, og Dómsmálaráðuneytinu.

Tilgangur sprettsins var að hanna notendavænan feril sem byggir á Réttarvörslugátt og uppfyllir þarfir lögreglu, dómstóla og fangelsa fyrir örugga, rekjanlega, vandaða og tímanlega meðferð sakamála. Útkoma vinnunnar var svo frumgerð að framtíðarlausn fyrir stafrænar ákærur.

Dómsmálaráðherra sló tóninn fyrir dagana en hún opnaði vinnustofuna með eldræðu og kom með skýr skilaboð inn í vinnuna. Markmið okkar er að einfalda líf fólks og það gerum við með stafrænum lausnum. Þar aukum við skilvirkni og gagnsæi í flóknum umhverfi þar sem lög og tækni þurfa að tala saman.

Réttarvörslugátt eykur skilvirkni til muna og mun draga allverulega úr handavinnu í pappírsmiðuðu umhverfi. Í framtíðinni munu upplýsingar ferðast hratt og örugglega á milli stofnana og verður opnað á stafræna þjónustu réttarvörslukerfisins bæði fyrir lögmenn og almenning.

Nú þegar komin er reynsla á gáttina, þar sem fyrsta útgáfa hennar snerist um að koma gæsluvarðhaldsmálum í stafrænt form og hafa farbönn bæst við. Til dæmis eru tæplega helmingur gæsluvarðahaldsmála á höfuðborgarsvæðinu afgreidd þar í gegn

Framtíðarsýn Réttarvörslugáttar

  • Öll gögn sem eru kveikjan að nýjum dómsmálum (t.d. ákærur, stefnur og áfrýjanir), sem og greinargerðir og málsgögn, ferðast rafrænt á milli aðila
  • Gögn eru slegin einu sinni inn og erfast á milli kerfa
  • Niðurstöður dómsmála eru undirritaðar og afhentar málsaðilum og hagaðilum rafrænt
  • Miðlun upplýsinga og tilkynninga  (t.d. um móttöku gagna, framvindu mála og fyrirtökur) er í rauntíma og án pappírs, undirritana og skönnunar
  • Fyrirtökur og samskipti í skriflegum málflutningi fara fram á netinu og fjarfundir eru möguleiki fyrir munnlegan málflutning
  • Tölfræði og yfirsýn yfir heildarferil mála þvert á kerfið er aðgengileg jafnóðum

Hér má fræðast nánar um verkefnið Réttarvörslugátt

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira