Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 2021 Heilbrigðisráðuneytið

​Til umsagnar: Frumvarp um afglæpavæðingu neysluskammta

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra - myndHeilbrigðisráðuneytið

Birt hafa verið til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda drög að frumvarpi heilbrigðisráðherra til breytinga á lögum um ávana- og fíkniefni sem fjallar um afglæðavæðingu neysluskammta. Frumvarpið byggist á hugmyndafræði skaðaminnkunar með áherslu á að draga úr neikvæðum afleiðingum vímuefnanotkunar, hvort heldur hjá notandanum, fjölskyldum hlutaðeigandi, nærsamfélagi notandans og samfélagsins í heild. Umsagnarfrestur er til og með 1. mars 2021.

Efni frumvarpsins er í samræmi við stefnu stjórnvalda um að meðhöndla skuli vanda vímuefnanotenda í heilbrigðiskerfinu fremur en dómskerfinu. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að snúa þurfi af braut harðra refsinga fyrir neyslu fíkniefna og leggja fremur áherslu á forvarnir og lýðheilsu. 

Helstu breytingar

Þær meginbreytingar sem lagðar eru til á gildandi lögum um ávana- og fíkniefni, fela í sér að kaup og varsla á takmörkuðu magni ávana- og fíkniefna til eigin nota, svokallaðra neysluskammta, verði heimiluð og ekki refsiverð. Gert er ráð fyrir að ráðherra kveði á um það í reglugerð hvernig skilgreina beri neysluskammt í samráði við lögregluna og notendur. Enn fremur er lagt til að ekki skuli gera upptæk ávana- og fíkniefni sem eru í vörslu einstaklinga sem eru 18 ára og eldri ef magnið er innan skilgreindra marka um neysluskammt.

„Við erum að feta okkur inn á nýjar brautir í þessum málum með áherslu á hugmyndafræði skaðaminnkunar. Þegar hefur verið stigið mikilvægt skref í þessa átt þar sem nú er heimilt samkvæmt lögum að stofna og reka svokölluð neyslurými, líkt og nánar er kveðið á um í reglugerð sem ég staðfesti fyrir skömmu“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum