Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 2021 Forsætisráðuneytið, Dómsmálaráðuneytið, Fjármála- og efnahagsráðuneytið, Innviðaráðuneytið, Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið, Matvælaráðuneytið

Vel gengur að fylgja eftir úrbótum á innviðum eftir fárviðrið í desember 2019

  • Samfélagið betur í stakk búið að takast á við fárviðri
  • Öll verkefnin uppfærð á innvidir2020.is

Ríkisstjórnin samþykkti þann 28. febrúar 2020 aðgerðaáætlun um uppbyggingu innviða í kjölfar fárviðrisins sem geisaði í desember 2019. Í aðgerðaáætluninni voru lagðar til 287 nýjar aðgerðir, eða flýtiaðgerðir, til að styrkja innviði landsins, sem meðal annars snúa að úrbótum á varaafli, auknum áreiðanleika raforku- og fjarskiptakerfa, skilgreiningu á hlutverki og mönnun fyrirtækja og stofnana, samræmingu skipulags innviða, eflingu almannavarnakerfisins, fræðslu og upplýsingagjöf til almennings og eflingu rannsókna og vöktunar á náttúruvá.

Fyrstu eftirfylgni innviðaátaksins er nú lokið. Af 287 nýjum aðgerðum, eða flýtiaðgerðum, er 81 skammtímaaðgerð sem ljúka átti innan 12 mánaða og 206 langtímaaðgerðir sem ljúka átti á þessu ári og allt fram til ársins 2040. Vinna við ríflega helming skammtímaaðgerða var að fullu lokið í lok ársins 2020, þegar 10 mánuðir voru liðnir af átakinu, og vinna við allar aðgerðirnar hafin. Vinna við 85% langtímaaðgerðanna var hafin. Ríflega eitt hundrað aðgerðir hafa tafist að hluta í vinnslu vegna heimsfaraldursins.

Fjöldi skammtímaaðgerða eftir innviðum og staða aðgerðanna í lok árs 2020

Fjöldi skammtímaaðgerða eftir innviðum og staða aðgerðanna í lok árs 2020

 

Vefsíðan innvidir2020.is hefur verið uppfærð með lýsingu á öllum verkefnum og stöðu þeirra um áramót. Á síðunni er hægt að skoða stöðu allra verkefna eftir landshlutum og tegund.

Aðgerðaáætlunin tekur til margra ára og því tekur tíma að bæta innviðina þannig að fullnægjandi sé. Ljóst er þó að ríkisstofnanir og innviðafyrirtæki eru reynslunni ríkari eftir síðasta vetur. Fjárfest hefur verið í tækjum og búnaði, viðhaldi sinnt og viðbragðsáætlanir gerðar eða endurbættar. Samfélagið í heild er því betur í stakk búið nú en áður að bregðast við fárviðri af því tagi sem skall á landinu í desember 2019.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum