Hoppa yfir valmynd
24. febrúar 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Dómsmálaráðuneytið

Stuðningur við börn í viðkvæmri stöðu til að draga úr líkum á ofbeldisbrotum þeirra

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, hafa samþykkt tillögur aðgerðateymis gegn ofbeldi um varanlegan stuðning við börn í viðkvæmri stöðu til að draga úr líkum á ofbeldisbrotum þeirra. Tillögurnar byggja á tilraunaverkefni sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk styrk til sl. sumar þar sem tekið var sérstaklega utan um börn og ungmenni í viðkvæmri stöðu og var reynslan af því verkefni mjög jákvæð.

Tillögurnar eru þríþættar:

Mótaðar verða reglur fyrir lögregluna á landsvísu um verklag við rannsókn ofbeldisbrota meðal barna og ungmenna annars vegar og um samstarf við aðrar stofnanir um forvarnir gegn afbrotum meðal barna og ungmenna hins vegar, og má þar nefna sýslumenn, félagsþjónustu, barnavernd, leik-, grunn- og framhaldsskóla, heilsugæslu, tómstunda- og íþróttastarf sveitarfélaga og aðrar lykilstofnanir í lífi barna þannig að tryggð verði samþætting þjónustu til farsældar fyrir börn og ungmenni.  Lögð verður sérstök áhersla á verklag og viðmið um ábendingar og tilkynningar á milli lögreglu, barnaverndar og skóla þegar kemur að ofbeldi gegn börnum. Einnig var lagt til að mótað yrði verklag, í samráði við börn og ungmenni, um vitundarvakningu um ofbeldi meðal barna og ungmenna.

Í öðru lagi verður upplýsingum um nýjar verklagsreglur og lagabreytingar miðlað innan löggæslunnar. Fræðsluefni verður útbúið og unnið að því að kynna innleiða nýja verkferla til að starfsfólk hafi þekkingu til að nota þá með réttum hætti.

Í þriðja lagi verður þjálfun starfsmanna  efld og endurmenntun starfsmanna innan löggæslunnar við verklag við rannsókn á ofbeldisbrotum barna og ungmenna tryggð.

Ríkislögreglustjóri mun vinna að þessum verkefnum í samvinnu við lögregluembættin, sýslumannsembættin og hlutaðeigandi stofnanir og félög í samræmi við lögreglulög.

Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra: „Í Covid-19 faraldrinum hafa börn og ungmenni sýnt merki um aukinn kvíða og vanlíðan sem tengist auknu félagslegu álagi sem faraldurinn hefur í för með sér. Það er mikilvægt að við grípum snemma inn í til að vernda börn í viðkvæmri stöðu og leggjum okkur fram um að efla og þróa samvinnu á velferð og högum barna, og komum á fjölbreyttari úrræðum fyrir gerendur í ofbeldisbrotum og þá sem eru í áhættuhópi.“

 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra: „Ég er afar ánægð að sjá hvernig til hefur tekist í tilraunaverkefninu sem við hrundum af stað síðastliðið sumar og hefur nú leitt til þess að forvarnarstarf gagnvart viðkvæmum hópi er fest í sessi. Ég ítreka það sem ég sagði við það tilefni að það felast mikil verðmæti í því að koma í veg fyrir að ungt fólk lendi á glapstigum. Ég bind miklar vonir við árangurinn af þessu verkefni og öðrum verkefnum sem sprottið hafa úr vinnu aðgerðarteymisins.“

Félags- og barnamálaráðherra og dómsmálaráðherra skipuðu þær  Eyglóu Harðardóttur og Sigríði Björk Guðjónsdóttur, ríkislögreglustjóra, í tímabundið aðgerðateymi gegn ofbeldi í maí 2020. Verkefnið var eitt af viðbrögðum stjórnvalda við áhrifum Covid-19 faraldursins en á tímum efnahagsþrenginga og áfalla er viðbúið að ofbeldi aukist og í því ljósi ákváðu stjórnvöld að grípa til markvissra aðgerða og vitundarvakningar gegn ofbeldi, einkum heimilisofbeldi og ofbeldi gegn börnum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum