Hoppa yfir valmynd
25. febrúar 2021 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Hvatning til ungs fólks með lesblindu

Úr heimildamyndinni Lesblinda - mynd

Ný íslensk heimildamynd um lesblindu verður frumsýnd á RÚV í kvöld kl. 20. Markmið hennar er að stuðla að aukinni umræðu um lesblindu, þau úrræði og leiðir sem standa til boða og mikilvægi þrautseigjunnar fyrir persónulegan árangur í námi. Mennta- og menningarmálaráðuneytið styrkir gerð myndarinnar og hefur tryggt skólum aðgengi að henni. 

„Allir geta lært – en það læra ekki allir eins. Það er fengur að þessari heimildamynd og skilaboð hennar eru mikilvæg öllum. Þrautseigja og samstarf skilar okkur árangri. Það er kraftur og vilji til góðra verka í íslenskum skólum og margt hefur áunnist til þess að mæta lesblindum nemendum með markvissum hætti – en það má alltaf gera betur. Við leggjum höfuðáherslu á að bæta læsi og auka snemmbæran stuðning sem fyrst á námsferlinum, eins og fram kemur í nýrri menntastefnu,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Höfundur myndarinnar er Sylvía Erla Melsted, söngkona og frumkvöðull:
„Þessi mynd er ástríðuverkefni og markmið hennar er fyrst og fremst að vera hvatning. Lesblindir þurfa oft að hafa miklu meira fyrir sínu námi en aðrir en það er svo mikilvægt að þeir hafi trú á eigin getu og gefist ekki upp. Einkunnir eru ekki allt – þær eiga ekki að skilgreina okkur sem námsmenn eða manneskjur. Það er frábært finna hljómgrunn og fá stuðning frá mennta- og menningarmálaráðherra og atvinnulífinu til þess að fylgja myndinni eftir.“

Myndin verður aðgengileg á vef RÚV og von er á kennsluleiðbeiningum og kveikjum fyrir kennara og aðra sem vilja nýta sér hana. Í apríl nk. mun mennta- og menningarmálaráðuneyti halda málþing í tengslum við nýja menntastefnu til ársins 2030 þar sem sérstök áhersla verður lögð á málefni lesblindra og snemmbæran stuðning í skólakerfinu. Þá mun Sylvía einnig fara í heimsóknir í skóla.

Aðgerðaáætlun nýrrar menntastefnu verður brátt kynnt. Þingsályktunartillaga nýrrar menntastefnu er nú til umfjöllunar í allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis.

Nánari upplýsingar um myndina má finna á slóðinni
mrn.is/lesblinda.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

4. Menntun fyrir öll

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum