Hoppa yfir valmynd
26. febrúar 2021 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Stuðningur og ráðgjöf vegna eineltismála

Hlutverk fagráðs eineltismála er að veita skólasamfélaginu stuðning vegna eineltismála með almennri ráðgjöf, leiðbeiningum og upplýsingagjöf. Vísa má eineltismálum til fagráðsins þegar ekki finnst fullnægjandi lausn á þeim innan skóla eða sveitarfélags og veitir ráðið þá álit sitt á grundvelli gagna og upplýsinga sem því berst. Fagráðið er ekki stjórnvald í skilningi stjórnsýslulaga þar sem álit þess eru ráðgefandi og umfjöllun fagráðsins valkvæð. Niðurstaða fagráðsins er ekki skuldbindandi fyrir aðila máls gagnvart öðrum úrræðum sem lög og reglur kunna að bjóða upp á.

Frumvarpsdrög, sem ætlað er að styrkja lagastoð og heimildir ráðsins, eru nú til kynningar í Samráðsgátt. Þar er meðal annars fjallað um skipan ráðsins, skýrari heimildir fyrir ráðið til þess að vinna með persónuupplýsingar og heimild þess til að takmarka aðgang aðila að gögnum ef talið er að slíkt geti skaðað hagsmuni barns, til samræmis við ákvæði barnaverndarlaga.

„Það er brýnt að styrkja umgjörð um vinnslu eineltismála í skólakerfinu og skerpa á hlutverki fagráðs eineltismála. Þetta frumvarp er liður í því,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Áhugasamir eru hvattir til þess að kynna sér málið og skila inn umsögnum við frumvarpsdrögin fyrir 9. mars nk.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

 Heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna - Heilsa og vellíðan

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira