Hoppa yfir valmynd
4. mars 2021 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra fundaði með yfirmanni herstjórnar Atlantshafsbandalagsins í Norfolk

Lewis aðmíráll heilsaði upp á norsku flugsveitina sem sinnir nú loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins hér á landi um þessar mundir - myndLandhelgisgæslan

Öryggis- og varnarmál á Norður-Atlantshafi voru aðalumræðuefnið á fundi Guðlaugs Þór Þórðarsonar utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra og Andrew Lewis, aðmíráls og yfirmanns herstjórnar Atlantshafsbandalagsins í Norfolk í Bandaríkjunum fyrr í þessari viku. 

Aðmírállinn kom hingað til lands til að kynna sér aðstæður og funda með íslenskum ráðamönnum og embættismönnum. Á mánudag hittust þeir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra  þar sem öryggis- og varnarmál á Norður-Atlantshafi voru til umræðu. Lewis fundaði einnig með Sigríði Á. Andersen, formanni utanríkismálanefndar Alþingis, um sama málefni. 

„Undanfarin ár hafa einkennst af vaxandi óvissu í öryggismálum á Norður-Atlantshafi, ekki síst vegna aukinna hernaðarumsvifa Rússa. Atlantshafsbandalagið hefur því beint sjónum sínum í auknum mæli að svæðinu og m.a. sett á fót herstjórnarmiðstöð í Norfolk, sem stefnt er að því að fari með stjórn herflota bandalagsins á Norður-Atlantshafi. Heimsókn aðmírálsins hingað til lands er liður í undirbúningi þess og því mikilvægt að geta rætt við hann um aðstæður hér og kynnt um leið hvað Ísland leggur af mörkum til sameiginlegra varna bandalagsins,“ segir Guðlaugur Þór.

Í gær heimsóttu Guðlaugur Þór og Lewis ásamt íslenskum og bandarískum embættismönnum öryggissvæðið á Keflavíkurflugvelli og kynntu sér starfsemina þar undir leiðsögn starfsfólks Landhelgisgæslunnar. Aðmírállinn heilsaði um leið upp á flugsveit norska hersins sem sinnir loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins hér á landi um þessar mundir. 

Herstjórn Atlantshafsbandalagsins í Norfolk (e. Joint Force Command Norfolk) var sett á fót í samkvæmt ákvörðun leiðtogafundar bandalagsins árið 2018. Ákvörðunin er liður í breytingum á herstjórnarkerfi bandalagsins til að geta betur mætt áskorunum í breyttu öryggisumhverfi Evrópu. Herstjórnin hefur Norður-Atlantshafið sem ábyrgðarsvæði sem endurspeglar vaxandi mikilvægi öryggis og varna á þessu svæði. Lewis aðmíráll er jafnframt yfirmaður 2. flota bandaríska sjóhersins.

 
  • Aðmírállinn, ráðherra og fylgdarlið þeirra kynntu sér starfsemina á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira