Hoppa yfir valmynd
11. mars 2021 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

560 sóttu um viðspyrnustyrki fyrstu vikuna

Alls sóttu 560 rekstraraðilar um viðspyrnustyrki í fyrstu vikunni eftir að opnað var fyrir umsóknir hjá Skattinum. Nú þegar hafa verið greiddar 194 milljónir króna í slíkan styrk til 154 rekstraraðila.

Viðspyrnustyrkjum er ætlað að aðstoða rekstraraðila við að viðhalda lágmarksstarfsemi meðan áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru gæti og gera samfélagið betur viðbúið því þegar heimurinn opnast að nýju. Úrræðið tekur til allra tekjuskattskyldra rekstraraðila sem verða fyrir a.m.k. 60% tekjufalli vegna heimsfaraldursins frá nóvember 2020 til og með maí 2021. Styrkfjárhæð nemur 90% af rekstrarkostnaði rekstraraðila þann mánuð sem umsóknin varðar en hún verður þó ekki hærri en sem nemur því tekjufalli sem rekstraraðili varð fyrir. Hámarksfjárhæðir styrkja nema 2 milljónum króna fyrir tekjufall á bilinu 60-80% og 2,5 milljónum fyrir tekjufall á bilinu 80-100%. Sótt er um styrkina fyrir einn mánuð í senn á vef Skattsins.

Frá því í janúar á þessu ári hafa verið greiddir um 8,7 milljarðar króna í tekjufallsstyrki  en viðspyrnustyrkir eru beint framhald þeirra.

Úrræðin nýst tugum þúsunda

Síðustu mánuði hafa tugir milljarða verið greiddir í fjölbreyttan stuðning í úrræðum ríkisstjórnarinnar vegna faraldursins, en úrræðin eru á annan tug talsins. Á fjórða þúsund rekstraraðilar og tugþúsundir einstaklinga hafa nýtt stuðninginn.

Meira en 1.800 rekstraraðilar hafa sótt um tekjufallsstyrki, sem ætlaðir eru rekstraraðilum sem orðið hafa fyrir verulegu tekjufalli í heimsfaraldrinum og er markmiðið að viðhalda atvinnustigi og efnahagsumsvifum með því að styðja þau fyrirtæki og einyrkja þar sem tekjufall er meira en 40%.

Þá hafa verið greiddir tæpir 2 milljarðar króna í lokunarstyrki og rúmir sex milljarðar króna hafa verið endurgreiddir aukalega af virðisaukaskatti (VSK) vegna margs konar framkvæmda en endurgreiðslurnar nýtast einkum einstaklingum og félögum á borð við sveitarfélög, almannaheillafélög og íþróttafélög.

Lítil fyrirtæki í miklum meirihluta

Yfirgnæfandi meirihluti fyrirtækja sem nýttu sér úrræði stjórnvalda vegna faraldursins árið 2020 voru með tíu launamenn eða færri. Þannig voru þau um 82% þeirra sem nýttu úrræðin, alls rúmlega 2.500 fyrirtæki. Markmið stuðnings við fyrirtæki er að verja störf eins og kostur er auk þess að skapa öfluga viðspyrnu þegar faraldrinum sleppir.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum