Hoppa yfir valmynd
11. mars 2021 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Plastmengun á norðurslóðum er viðvörun til heimsbyggðarinnar

Guðmundur Ingi Guðbrandson, umhverfis- og auðlindaráðherra, flutti lokaávarp á ráðstefnunni - mynd

Plastmengun á norðurslóðum sýnir að vandinn varðandi plast í hafi er umfangsmikill og hnattrænn í eðli sínu og krefst viðbragða alþjóðasamfélagsins. Þetta kom fram í máli Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, sem hélt lokaávarp á alþjóðlegri ráðstefnu um plastmengun á norðurslóðum, sem haldin var á vegum ríkisstjórnar Íslands og Norrænu ráðherranefndarinnar.

Ráðherra þakkaði fyrirlesurum á ráðstefnunni, sem hefðu dregið upp góða mynd af umfangi plastmengunar á Norðurslóðum, uppruna hennar og afleiðingum. Mikilvægt væri að byggja á bestu þekkingu og fylgja leiðsögn vísindanna. Nú væri það verkefni ráðamanna að bregðast við, í hverju ríki, á vettvangi Norðurskautsráðsins og á alþjóðavísu.

Sagði ráðherra að ýmislegt væri hægt að gera heima fyrir. Nefndi hann sem dæmi nýlega aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda til að draga úr plastúrgangi og plastmengun, með 18 aðgerðum, en einnig bann við notkun plastpoka og ýmissa einnota vara úr plasti. Plast væri gagnlegt efni til ýmissa nota, en koma þyrfti í veg fyrir sóun og vanda af völdum einnota plasts og slæmrar umgengni. Um 8 milljón tonn af plasti lentu í hafinu ár hvert og gæti það magn þrefaldast fram til 2040 ef ekkert væri að gert.

Ráðherra lagði áherslu á að brugðist yrði við vandanum hnattrænt. Vinna verði  að gerð alþjóðlegs samnings, sem geti samræmt aðgerðir ríkja heims til að draga úr sóun og tryggja að plastúrgangur lendi ekki í umhverfinu og hafinu. Umræða um slíkan samning sé á dagskrá Umhverfisstofnunar S.þ. (UNEP). Þá hafi Norðurlöndin nýlega kynnt leiðarvísi að því hvernig alþjóðlegur samningur gegn plastmengun gæti verið og hvernig hann gæti gagnast til að takast á við vandann.

Ráðstefnan var haldin vegna formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu en Ísland hefur þar meðal annars lagt áherslu á aðgerðir til að draga úr plastmengun á norðurslóðum. Upphaflega átti að halda ráðstefnuna í Reykjavík í apríl 2020, en vegna heimsfaraldursins var henni frestað og hún færð yfir á netið.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira