Hoppa yfir valmynd
12. mars 2021 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Samið við Norðmenn um samvinnu á sviði netöryggismála

Frá undirritun samstarfssamningsins. Frá vinstri eru Nils Kalstad, deildarstjóri upplýsingaöryggis- og fjarskiptadeildar Norska tækniháskólans, NTNU, Inge Øystein Moen, yfirráðgjafi við samvinnusetrið CCIS, sem hefur séð um undirbúning samninga, Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri, og Dr. Sigurður Emil Pálsson, sérfræðingur í ráðuneytinu og formaður Netörygissráðs. - mynd

Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, undirritaði í gær samning um aðild ráðuneytisins að samvinnusetri um netöryggi (Centre for Cyber and Information Security, CCIS) sem Norski tækniháskólinn (NTNU) stýrir og ýmsir opinberir aðilar og fyrirtæki í Noregi eiga aðild að. Markmið samningsins er að efla rannsóknir, hæfni og menntun á sviði netöryggisfræða á Íslandi og í Noregi og stuðla að aukinni samvinnu.

Netöryggisfræði er þverfagleg grein og um 120 vísindamenn starfa nú innan og í tengslum við CCIS, sem hefur hlotið veruleg fjárframlög frá norskum og alþjóðlegum sjóðum til rannsókna enda er áhersla í starfi setursins á brýn samfélagsleg verkefni til að tryggja öryggi netþjónustu og annarrar notkunar Netsins.

„Ráðuneytið hefur átt gott samstarf við Norska tækniháskólann og norsk stjórnvöld á liðnum árum. Með samningnum er samstarfið aukið og mikilvægt skref stigið fram á við í norrænni samvinnu, enda er samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra jafnframt ráðherra norrænnar samvinnu,“ segir Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri.

Enginn kostnaður eða fjárhagslegar skuldbindingar fyrir Ísland fylgja þessum samningi, en hann veitir íslenskum aðilum á hinn bóginn dýrmætan aðgang að þekkingu, þróun og rannsóknum á sviði netöryggis í Noregi, hvernig þekkingunni er beitt í samfélaginu og opnar hann að auki ýmis tækifæri til samvinnu.

Nám í netöryggisfræðum við NTNU

Ýmsir þættir tengdir netöryggi hafa verið kenndir við háskóla áratugum saman, en netöryggisfræði sem heildstæð þverfagleg námsbraut var hvergi til fyrir um áratug síðan. Til að glíma við netógnir samtímans þarf þverfaglega nálgun svipað og í verkfræðigreinum, þar sem þekkingu á mörgum sviðum er fléttað saman.

Norski tækniháskólinn, NTNU, býður upp á nokkrar námsbrautir tengdar netöryggi, þar á meðal er tveggja ára framhaldsnám (MS) í „Information Security“ sem er kennt á ensku og unnt að taka að verulegu leyti í fjarnámi og byggja t.d. á hagnýttum íslenskum rannsóknaverkefnum. Doktorsnám á þessu sviði er einnig í boði og rannsóknaverkefni geta verið fjölmörg, t.d. tengd samvinnusetrinu CCIS og aðilum þess. Yfirlit yfir námsbrautir eru á vef skólans

Norrænir námsmenn njóta sérkjara við skólann og umsóknarfrestur til að sækja um skólavist á næsta námsári er til 15. apríl nk. Nánari upplýsingar um námsbrautirnar, einstök námskeið og umsóknarferli má sjá á vef skólans. Auk þess veitir Dr. Sigurður Emil Pálsson, sérfræðingur hjá ráðuneytinu, upplýsingar um þetta efni.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum