Hoppa yfir valmynd
12. mars 2021 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Úttekt á gæðum náms við Háskólann á Bifröst

Háskólinn á Bifröst - myndVefur: Bifrost.is
Gæðaráð íslenskra háskóla hefur nú birt niðurstöður úttektar á gæðum náms við Háskólann á Bifröst. Úttektin er liður í skipulegu eftirliti ráðsins með gæðum íslenskra háskóla með áherslu á nemendur, námsumhverfi og prófgráður.

Meðal helstu niðurstaðna úttektarinnar er að helstu styrkleikar Háskólans á Bifröst séu að þar er hugað vel að velferð nemenda sem eru stoltir af skólanum og ánægðir með gæði náms og kennara. Skipulag náms hefur batnað frá síðustu úttekt með skýrari hæfniviðmiðum og námsmati og fjárhagsleg staða skólans hefur styrkst.

Í úttekt gæðaráðsins eru gerðar athugasemdir við ýmsa þætti sem skólinn þarf að vinna að umbótum á. Má þar nefna að skýra þurfi stefnu hans, forgangsröðun og framkvæmd aðgerðaáætlana, bæta upplýsingagjöf til nemenda, styrkja tengsl og samskipti við nærsamfélag, atvinnulíf og aðra hagaðila og nýta betur gögn um nemendur til frekari stefnumótunar og kennsluþróunar.

Háskólinn á Bifröst mun í framhaldinu skila umbótaáætlun til gæðaráðs íslenskra háskóla sem verður fylgt eftir af hálfu ráðsins og í reglulegu samráði skólans við ráðuneytið.

Gæðaráð íslenskra háskóla starfar fyrir mennta- og menningarmálaráðuneyti en markmið eftirlits þeirra er m.a. að bæta kennslu og rannsóknir á vettvangi íslenskra háskóla, tryggja að skilyrði fyrir viðurkenningu ráðherra á fræðasviðum háskóla séu uppfyllt og tryggja samkeppnishæfni íslenskra háskóla á alþjóðavettvangi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira