Hoppa yfir valmynd
16. mars 2021 Dómsmálaráðuneytið

Fullnægjandi bólusetningarvottorð utan Schengen verða gild

Á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun var samþykkt tillaga dómsmálaráðherra um breytingu á ákvæðum reglugerðar um för yfir landamæri nr. 866/2017. Almennt bann við tilefnislausum ferðum 3. ríkis borgara yfir ytri landamærin mun eftir breytinguna ekki ná til einstaklinga með fullnægjandi bólusetningarvottorð. Jafnframt verður 6. gr. reglugerðar nr. 161/2021 um sóttkví og einangrun og sýnatöku við landamæri Íslands vegna COVID-19 breytt, þannig að ákvæðið taki til allra bólusetningar- og mótefnavottorða sem gefin eru út í samræmi við reglur WHO um alþjóðleg bólusetningarskírteini án tillits til þess frá hvaða ríkjum þau stafi, að því gefnu að þau uppfylli að öðru leyti efnisskilyrði ákvæðisins.

Þá hefur dómsmálaráðherra, að fengnu áhættumati ríkislögreglustjóra, hefur tekið ákvörðun um upptöku landamæraeftirlits á innri landamærum í samræmi við 29. gr. reglugerðar nr. 866/2017 um för yfir landamæri og mun Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins verða tilkynnt um það. Ástæðan er að í kjölfar þess, að ný reglugerð heilbrigðisráðherra um skyldu ferðamanna að framvísa vottorði um neikvætt PCR próf við komuna til landsins, hefur lögreglan á Suðurnesjum viðhaft mun virkara eftirlit á landamærum til að tryggja það að ferðamenn framvísi gildum vottorðum. Þrátt fyrir að breytingarnar séu fyrst og fremst formlegs eðlis mun upptaka eftirlits á innri landamærum gera íslenskum landamærayfirvöldum kleift að bregðast við hvers kyns aðstæðum með skjótari hætti og tryggja því enn fremur sóttvarnir á landamærum og koma í veg fyrir að smit þaðan berist inn í samfélagið, án þess að reglur um frjálsa för yfir innri landamærin standi því í vegi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum