Hoppa yfir valmynd
18. mars 2021 Utanríkisráðuneytið

Rafrænn viðskiptafundur Íslands og Tékklands á sviði nýsköpunar og grænna lausna

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. - myndHaraldur Guðjónsson

Íslenskar og tékkneskar tækninýjungar á sviði umhverfis- og loftslagsmála voru kynntar á rafrænum viðskiptafundi sem fór fram í morgun á milli Íslands og Tékklands. Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, flutti opnunarerindi ásamt utanríkisráðherra Tékklands, Tomáš Petříček.

Hugmyndin að viðskiptafundinum var upphaflega rædd á símafundi ráðherranna í desember síðastliðnum í tengslum við gagnkvæman áhuga þeirra á að hvetja til aukinna viðskipta á milli ríkjanna. Markmiðið með þessum fundi var að tengja saman íslensk og tékknesk fyrirtæki á sviði nýsköpunar og grænna lausna og deila reynslu.

,,Íslensk og tékknesk fyrirtæki standa framarlega á þessum sviðum og það er mikilvægt að nýta hugvit og þekkingu þeirra til þess að við getum náð markmiðum okkar í loftslagsmálum og heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna,“ sagði Guðlaugur Þór við þetta tækifæri.

Í upphafi fundar fjölluðu Birta Kristín Helgadóttir, verkefnastjóri hjá Grænvangi, og Zdeněk Horsák, varaforseti Czech Association of Circular Economy, um mikilvægi nýsköpunar í baráttunni gegn loftslagsvánni og grænar lausnir frá ríkjunum. Í kjölfarið héldu íslensku fyrirtækin Circular Solutions, Klappir, Resource International og Ýmir Technologies og tékknesku fyrirtækin ASIO, Agile Europe, Cyrkl, EKO-KOM og HUITRA-BRNO stuttar kynningar. Þórir Ibsen, sendiherra Íslands gagnvart Tékklandi, stýrði fundinum.

Fundurinn er hluti af rafrænni viðskiptafundaröð sem utanríkisráðuneytið stendur fyrir  í samvinnu við Íslandsstofu, aðrar utanríkisþjónustur og samstarfsaðila í viðkomandi ríkjum.  Markmiðið er að búa til vettvang fyrir íslensk fyrirtæki til að kynna vörur sínar og þjónustu erlendis, og finna nýja samstarfsaðila, nú þegar ferðalög á milli landa liggja að mestu niðri. Stofnaður hefur verið samráðsvettvangur fyrir fyrirtækin svo að þau geti verið í beinum samskiptum sín á milli í kjölfar fundarins.

Upptöku af fundinum má sjá hér að neðan.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira